Innlent

Eldis­laxar fundust í Ósá í Pat­reks­firði

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Patreksfirði.
Frá Patreksfirði. Vísir/Einar

Fjórir eldislaxar veiddust í net Arctic Fish sem fyrir­tækið lagði undir eftir­liti Fiski­stofu ná­lægt ósi Ósár í Pat­reks­firði og í ánni sjálfri síðast­liðinn mið­viku­dag. Matvælastofnun rannsakar hversu margir fiskar hafa sloppið.

Tvö göt komu í ljós á kví númer átta hjá Arctic Fish í Kvígindis­dal í Pat­reks­firði síðasta sunnu­dag. Greindi fyrir­tækið sjálft frá því í til­kynningu en í kvínni eru 72.522 fiskar. Voru götin hvort um sig 20x30 sentí­metrar.

Vísir leitaði við­bragða hjá Fiski­stofu vegna málsins. Í kjöl­farið birti stofnunin til­kynningu á vef sínum. Þar segir að engir fiskar hafi veiðst í net sem Arctic Fish hafi lagt við sjó­kvína.

Segir í til­kynningunni að í fram­haldi hafi verið við­haft eftir­lit meðal annars með dróna og sást til fiska í Ósá í Pat­reks­firði þriðju­daginn 22. ágúst. Fiski­stofa gerði við­komandi land­eig­endum við­vart og mælti fyrir um að Arctic Fish skyldi leggja net í sjó ná­lægt ósi Ósár, 23. ágúst, og einnig voru net lögð í Ósá. Var það gert og var eftir­lits­maður Fiski­stofu með við lagningu neta.

Fjórir laxar veiddust í netin sem allir höfðu eldis­ein­kenni. Fiskarnir verða af­hentir Haf­rann­sókna­stofnun til erfða­greininga og frekari rann­sókna í dag.

Segist stofnunin hafa mælt fyrir um það að fleiri net skuli lögð. Á­fram verði neta­veiði reynd í sjó í Pat­reks­firði um helgina. Segist stofnunin fylgjast náið með veiðunum og segist hún muna endur­meta þörf fyrir að­gerðir ef til­efni verður til.

Matvælastofnun rannsakar götin

Þá segir í tilkynningu frá Matvælastofnun að stofnunin hafi strax hafið rannsókn á málinu. Sú rannsókn standi yfir.

Segir að rannsókn stofnunarinnar miði að því að finna út ástæðu fyrir götunum, fjölda fiska sem hafi strokið og einnig að kanna hvort innri gæðaferlum fyrirtækisins hafi verið fylgt í hvívetna.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá Matvælastofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×