Enski boltinn

Chelsea horfir til leikmanns Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emile Smith Rowe á enn eftir að koma við sögu hjá Arsenal á tímabilinu.
Emile Smith Rowe á enn eftir að koma við sögu hjá Arsenal á tímabilinu. getty/Stuart MacFarlane

Chelsea hefur áhuga á að fá Emile Smith Rowe, leikmann Arsenal, áður en félagaskiptaglugganum verður lokað um mánaðarmótin.

Þrátt fyrir að hafa eytt stjarnfræðilegum upphæðum í leikmenn er Chelsea ekki með mikla breidd fremst á vellinum. Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, vill því styrkja þær stöður áður en félagaskiptaglugganum verður lokað á föstudaginn.

Chelsea horfir meðal annars til Smith Rowe sem hefur ekki enn spilað mínútu fyrir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Hann var mikið meiddur í fyrra og spilaði þá aðeins fjórtán leiki í öllum keppnum. Tímabilið 2021-22 skoraði Smith Rowe hins vegar ellefu mörk í 37 leikjum.

Chelsea rennir einnig hýru auga til tveggja leikmanna Barcelona, Ferrans Torres og Raphinha. Þeir þekkja báðir vel til á Englandi. Torres lék með Manchester City og Raphinha með Leeds.

Chelsea vann sinn fyrsta sigur í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þegar liðið lagði nýliða Luton Town að velli á föstudaginn, 3-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×