Íslenski boltinn

Þjálfara­mál Breiða­bliks skýrist á allra næstu dögum: „Ekki létt­­væg skref að stíga“

Aron Guðmundsson skrifar
Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks (til vinstri) og Ásmundur Arnarsson, fráfarandi þjálfari Breiðabliks (til hægri)
Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks (til vinstri) og Ásmundur Arnarsson, fráfarandi þjálfari Breiðabliks (til hægri) Vísir/Samsett mynd

Flosi Ei­ríks­son, for­maður knatt­spyrnu­deildar Breiða­bliks segir á­kvörðunina um að binda endi á sam­starfs fé­lagsins við þjálfarann Ás­mund Arnars­son, sem hafði stýrt kvenna­liði fé­lagsins frá því um haustið 2021, vera afar erfiða. Þjálfara­mál liðsins skýrist á allra næstu dögum.

Seinni partinn í gær birtist yfir­lýsing frá knatt­spyrnu­deild Breiða­bliks þar sem greint var frá því að fé­lagið hefði komist að sam­komu­lagi við Ás­mund Arnars­son um að hann myndi láta af störfum sem þjálfari kvenna­liðs fé­lagsins í fót­bolta.

Er árangur liðsins að undan­förnu sagður liggja að baki þessari á­kvörðun. 4-2 tap gegn Þrótti Reykjavík um ný­liðna helgi reyndist síðan vera dropinn sem fyllti mælinn.

„Þessi á­kvörðun var okkur erfið,“ segir Flosi í sam­tali við Vísi. „Ás­mundur er afar góður þjálfari og fær, það hefur hann sýnt á sínum tíma hjá okkur. Þá er hann góður fé­lagi en við töldum okkur þurfa að gera breytingar á þessum tíma­punkti miðað við stöðuna en þetta eru ekki létt­væg skref að stíga.“

Er það Breiða­blik sem á frum­kvæðið að þessari á­kvörðun?

„Við komumst að þessu sam­komu­lagi,“ var svar Flosa við þessari spurningu.

En hvað tekur þá við hjá Breiða­bliki núna hvað varðar þjálfara­mál? Fram undan er úr­slita­keppni Bestu deildarinnar en liðið er sem stendur í 2.sæti, átta stigum á eftir topp­liði Vals og fimm stigum fyrir ofan Stjörnuna sem situr í 3.sæti.

En leit ykkar að nýjum þjálfara. Búist þið við að ganga frá ráðningu fyrir lok tíma­bils eða er það eitt­hvað sem bíður þar til eftir tíma­bil?

„Þetta er nú bara eitt­hvað sem er í vinnslu. Þetta eru tvær að­skildar á­kvarðanir sem við erum að taka, þar er annars vegar að klára þetta tíma­bil og hins vegar hvernig við högum þjálfara­málum liðsins til fram­tíðar. Þetta skýrist á allra næstu dögum.“

Leitað var eftir við­brögðum hjá Ás­mundi Arnars­syni, frá­farandi þjálfara Breiða­bliks, en hann vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×