Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, telur mestu máli skipta að gengisálag á kortaviðskipti verði eðlilegt.
„Við greiðum mikið álag og það er í raun betra fyrir okkur að taka út reiðufé en að nota stundum kortin okkar út af þessu gengisálagi. Gengisálagið þarf að lækka og það næsta sem verður að gerast er að vaxtamunurinn þarf líka að minnka,“ segir Lilja og bendir á að kostnaður bankanna hafi verið að lækka og arðsemin að aukast í þessari miklu verðbólgu.
Lilja segir að skýrslugjöf verði aukin til þingsins og að aðhald verði að árlegum viðburði. Þetta sé í fyrsta skipti sem samanburður sé gerður við Norðurlöndin þannig að það sjáist svart á hvítu að Íslendingar séu að greiða meira fyrir þessa þjónustu.
„Ég geri fastlega ráð fyrir því að aukin samkeppni og viðbrögð stjórnenda bankanna verði þess eðlis að þeir láti íslenska neytendur njóta þess að þeir hafi verið að hagræða,“ segir Lilja.