Fótbolti

Val­geir Lund­dal í Evrópu­deildina á meðan Hákon Arnar fer í Sam­bands­deildina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson í leik með Lille.
Hákon Arnar Haraldsson í leik með Lille. Vísir/Getty

Í kvöld kom í ljós hvaða lið komust í riðlakeppni Evrópu- og Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu. Fyrr í kvöld tryggði Breiðablik sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar en nú er öllum leikjum kvöldsins lokið.

Valgeir Lunddal Friðriksson var í byrjunarliði Svíþjóðarmeistara Häcken þegar liðið lagði Aberdeen 3-1 í Skotlandi. Undir var sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Fyrri leik liðanna lauk með 2-2 jafntefli og Häcken vann því einvígið 5-3.

Valgeir Lunddal var tekinn af velli á 62. mínútu en hann fékk gult spjald þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum.

Hákon Arnar Haraldsson hóf leik á varamannabekk Lille þegar franska félagið sótti Rijeka heim í Króatíu. Hann kom inn af bekknum á 87. mínútu en þá var staðan 1-0 Rijeka í vil og staðan jöfn 1-1 í einvíginu.

Staðan var 1-0 að loknum venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja. Þar skoraði Jonathan David og tryggði Lille sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. David hafði skorað í venjulegum leiktíma en það mark var dæmt af vegna rangstöðu.

Sverrir Ingi Ingason var í byrjunarliði Midtjylland sem sótti Legia frá Póllandi heim. Fyrri leik liðanna lauk með 3-3 jafntefli og því þurftu Sverrir Ingi og félagar á sigri að halda til að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Leik kvöldsins lauk með 1-1 jafntefli og því þurfti að framlengja. 

Sverrir Ingi var tekinn af velli í upphafi framlengingar. Þar sem hvorugu liðinu tókst að skora þurfti að útkljá einvígið í vítaspyrnukeppni. Þar hafði Legia betur og er því komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu.

Alfons Sampsted lék allan leikinn í stöðu hægri bakvarðar þegar Twente tapaði 0-1 á heimavelli fyrir Fenerbahçe í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Gestirnir frá Tyrklandi unnu fyrri leik liðanna 5-1 og því einvígið svo gott sem búið þegar flautað var til leiks í kvöld.

KÍ Klaksvík fer í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir tap gegn Sheriff Tiraspol í kvöld. Lokatölur leiksins 2-1 Sheriff í vil sem þýðir að Sheriff vann einvígið 3-2 og fer í Evrópudeildina. Luc Kassi skoraði mark Klaksvíkur eftir stoðsendingu frá Árna Fredriksberg.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×