Starfsfólk suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs hefur haft meira en nóg að gera í sumar við að þjóna ferðamönnum en sjaldan eða aldrei hafa jafn margir ferðamenn verið eins og í Skaftafelli og á Jökulsárlóni. 120 þúsund gestir komu til dæmis á Jökulsárlón í júlí og um 140 þúsund í ágúst. Þrátt fyrir allan þennan fjölda segir Steinunn Hödd Harðardóttir, þjóðgarðsvörður á austurhluta suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs með aðsetur á Höfn, að starfsemin hafi gengið ótrúlega vel í sumar.
„Já, það hefur gengiðrosalega vel. Fólk er almennt kurteist og eru hérna til að skoða þessa frábæru náttúru, sem er í Vatnajökulsþjóðgarði. Allir eru mjög opnir fyrir fræðslu frá landvörðum og fræðslugöngur með landvörðum hafa verið mjög vel sóttar hjá okkur þannig að það eru bara allir komnir til að hafa gaman,” segir Steinunn Hödd.

Fyrr í sumar hófst gjaldtaka á bílastæðinu við Jökulsárlón. Hvernig hefur það komið út?
„Það hefur gengið rosalega vel og engin stór vandamál, sem hafa komið upp. Gestirnir okkar eru yfirhöfuð tilbúnir til að borga fyrir þessa þjónustu, sem er í formi landvörslu, fræðslu, bílastæði og salerni, þannig að það hefur bara gengið ofboðslega vel.”
Er uppselt á Jökulsárlón eða er hægt að taka endalaust við fólki þar?
„Það er kannski ekki uppselt en það er orðið svolítið þröngt á þingi þarna yfir sumartímann en með haustinu fer aðeins að fækka.”

En hvernig leggst haustið og vetur í Steinunni Hödd og hennar starfsfólk?
„Haustið leggst bara mjög vel í okkur. Þá breytist aðeins starfsemin í þjóðgarðinum því þá förum við meira í að taka á móti fólki, sem er að fara í íshellaferðir og jöklagöngu á bæði Breiðamerkurjökli og Falljökli. Þá breytist aðeins samsetning gestanna og fækkar aðeins en verkefni landvarða og starfsfólksins eru alltaf þau sömu eða að standa vörð um náttúruna og passa að allir gangi vel um svæðið okkar,” segir Steinunn Hödd.