Enski boltinn

Segir það ekki satt að Amra­bat sé meiddur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Amrabat mun ekki spila í fjólubláu á þessari leiktíð.
Amrabat mun ekki spila í fjólubláu á þessari leiktíð. EPA-EFE/CLAUDIO GIOVANNINI

Miðjumaðurinn Sofyan Amrabat gekk nýverið í raðir enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United á láni. Í kjölfarið fóru orðrómar af stað að leikmaðurinn væri meiddur á baki og gæti verið frá í allt að sex vikur.

Man United var með Amrabat á blaði frá því að félagaskiptaglugginn opnaði en náði þó ekki að koma Amrabat inn um dyrnar fyrr en rétt áður en glugginn lokaði vegna fjárhagsvandræða liðsins.

Hinn 27 ára gamli Amrabat kemur frá Fiorentina á Ítalíu en hafði áður spilað í Hollandi og Belgíu. Eftir að spila með U-15 ára landsliði Hollands ákvað Amrabat að velja Marokkó en foreldrar hans eru þaðan þó leikmaðurinn sé fæddur í Hollandi. Alls hefur hann spilað 49 A-landsleiki en þeir gætu orðið 50 í september.

Leikmaðurinn er nefnilega í landsliðshópi Marokkó fyrir komandi landsliðsverkefni þó svo að það hafi verið talið að leikmaðurinn væri að glíma við bakmeiðsli og væri frá næstu vikurnar. James Ducker, íþróttablaðamaður hjá The Telegraph, staðfesti að Amrabat væri ekki meiddur og væri á leið í landsliðsverkefni Marokkó.

Þetta eru gleðifréttir fyrir stuðningsfólk Man United en liðið þarf svo sannarlega á öllum sínum mönnum að halda eftir brösuga byrjun á tímabilinu. Þá er liðið að glíma við fjölda meiðsla en liðið var án Raphaël Varane, Luke Shaw og Mason Mount í tapinu gegn Arsenal. Þá fóru miðverðirnir Lisandro Martínez og Victor Lindelöf meiddir af velli í leiknum.

Man United tekur á móti Brighton & Hove Albion í 5. umferð ensku úrvalsdeildarinnar þann 16. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×