Enski boltinn

Arteta íhugar að skipta um markvörð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Raya og Aaron Ramsdale berjast um markvarðarstöðuna hjá Arsenal.
David Raya og Aaron Ramsdale berjast um markvarðarstöðuna hjá Arsenal. getty/Jacques Feeney

Markvörðurinn Aaron Ramsdale gæti misst sæti sitt í byrjunarliði Arsenal til Davids Raya.

Daily Mail greinir frá því að Mikel Arteta, knattspynustjóri Arsenal, íhugi alvarlega að gefa Raya tækifæri í byrjunarliði Skyttanna.

Ramsdale hefur verið aðalmarkvörður Arsenal síðan hann kom frá Sheffield United fyrir tveimur árum. Hann var valinn í lið ársins á Englandi á síðasta tímabili.

Arsenal fékk hins vegar Raya á láni frá Brentford í síðasta mánuði og talið er að Arteta vilji gefa honum tækifæri til að vinna sér sæti í byrjunarliðinu. 

Hann gæti til að mynda spilað þegar Arsenal mætir Brentford í deildabikarnum í lok mánaðarins. Leikmenn mega venjulega ekki spila gegn liðinu sem þeir eru samningsbundnir en hægt er að fá undanþágu til þess í deildabikarnum og talið er ólíklegt að Brentford setji sig upp á móti því að Raya spili leikinn.

Ramsdale hefur varið markið í fyrstu fjórum leikjum Arsenal á tímabilinu, meðal annars í 3-1 sigrinum á Manchester United á sunnudaginn.

Arsenal er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með tíu stig, tveimur stigum á eftir toppliði Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×