Viðskipti innlent

Við­brögðin við Ís­lands­banka­sáttinni úr öllu hófi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Marinó Örn Tryggvason, fyrrverandi forstjóri Kviku banka.
Marinó Örn Tryggvason, fyrrverandi forstjóri Kviku banka. Vísir/Vilhelm

Marinó Örn Tryggva­son, sem lét ný­lega af störfum sem for­stjóri Kviku banka, segir að sér þyki sam­fé­lagið hafa farið ó­sann­gjörnum höndum um stjórn­endur Ís­lands­banka í kjöl­far þess að sátt Fjár­mála­eftir­litsins við bankann var opin­beruð. Við­brögðin hafi verið úr öllu hófi.

Þetta kemur fram í hlað­varps­þættinum Chess after Dark þar sem Marínó var gestur en Við­skipta­blaðið greindi fyrst frá. Marínó segir harka­lega um­ræðu um stjórn­endur Ís­lands­banka ekki hafa haft úr­slita­á­hrif á á­kvörðun sína um að stíga til hliðar en hún hafi hins vegar haft á­hrif.

Farið harka­lega um stjórn­endur og starfs­menn

„Mér sjálfum fannst farið mjög harka­lega um stjórn­endur og starfs­menn Ís­lands­banka. Ég hugsaði um kollega minn fyrr­verandi, hana Birnu [Einars­dóttur], þar sem mér fannst farið mjög harka­lega með hana fyrir að mínu mati litlar sakir hjá henni,“ segir Marinó.

Kvika átti í sam­runa­við­ræðum við Ís­lands­banka en sleit þeim nokkrum dögum eftir að sáttin var gerð opin­ber. Marinó segir á­kvörðunina eftir á að hyggja hafa verið hár­rétt og verið byggð á mati bankans á við­brögðum sam­fé­lagsins, sem hafi verið harðari en stjórn­endur Kviku áttu von á.

„Mér finnst sam­fé­lagið hafa farið mjög ó­sann­gjörnum höndum um stjórn­endur Ís­lands­banka, mér finnst menn hafa gengið allt­of langt í því. Þarna voru jú brota­lamir og Ís­lands­banki hefur viður­kennt það. En mér finnst við­brögðin úr öllu hófi við til­efnið.“

Stjórn­endur Kviku hafa áður sagst vera opnir fyrir því að taka upp sam­einingar­við­ræður að nýju við Ís­lands­banka í fram­tíðinni. Marinó segir það geta verið spennandi.

„Það hefði verið hægt að búa til öflugasta og stærsta fjár­mála­fyrir­tæki landsins sem hefði getað gert ó­trú­lega hluti. Aftur á móti tel ég líka að fram­tíðin sé mjög björt hjá Kviku óháð sam­runanum, það eru mikil tæki­færi þar líka.“

Um­ræðan á lágu plani

Þá minnist Marinó á fram­göngu á­kveðinna stéttar­fé­laga vegna Ís­lands­banka­málsins og segir að sér þyki ó­trú­lega langt gengið að kalla eftir upp­sögnum á starfs­fólki Ís­lands­banka.

Ný­lega furðaði Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, sig á því í sam­tali við frétta­stofu að ekki hefði verið gengið lengra í upp­sögnum í Ís­lands­banka. Þar væru enn starfs­menn sem hefðu verið þát­tak­endur í sölu bankans á hlut ríkisins.

„Manni finnst um­ræðan um þetta vera því miður á allt­of lágu plani,“ segir Marinó. „Það er voða­lega slæmt ef um­ræða í sam­fé­lagi um mál sem skipta miklu máli er allt­of grunn.“

Kom á ó­vart hvað fjár­sektirnar voru háar

Marinó segir að sér hafi komið á ó­vart hvað sektar­greiðslur á Ís­lands­banka í sáttinni við Fjár­mála­eftir­litið hafa verið háar. Hann hafi búist við því að sátt yrði gerð við bankann í málinu.

„Það kom mér samt á ó­vart, bæði hvað fjár­hæðirnar voru háar og mér fannst sáttin harka­lega orðuð,“ segir Marinó. Hann veltir því upp hvort að sú breyting hafi orðið á að stjórn­völd fari nú fram á mun hærri sektar-og sátta­greiðslur en áður.

Fjár­mála­kerfið sé lítið á Ís­landi en í stórum dráttum með sama reglu­verk og eru við lýði í löndum Evrópu þar sem séu miklu stærri fjár­mála­fyrir­tæki. Það sé flókið að fylgja öllum lögum og reglum, þó Marinó taki fram að hann sé ekki að gera lítið úr því þegar lög og reglur séu brotnar. Mikil­vægt sé að hafa í huga í Ís­lands­banka­málinu hverjir hafi verið raun­veru­legir brota­þolar.

„Stór hluti af þessum brotum hjá Ís­lands­banka voru gegn lögum eða reglum um fjár­festa­vernd sem er ætlað að vernda við­skipta­vini fjár­mála­fyrir­tækisins og í þessu til­felli þá kaup­endurna. Ég hef alla­vega ekki heyrt neins staðar að þeir sem keyptu séu að kvarta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×