Körfubolti

Nýr leik­maður Lakers gæti leyft Davis að færa sig um set á vellinum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Wood í baráttunni við Anthony Davis á sínum tíma.
Wood í baráttunni við Anthony Davis á sínum tíma. Vísir/Getty Images

Christian Wood hefur skrifað undir tveggja ára samning við Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta. Það gefur Lakers svigrúm til að spila Anthony Davis í annarri stöðu á vellinum en Davis hefur gefið í skyn að hann vilji spila meira sem kraftframherji í vetur.

Hinn 27 ára gamli Wood spilaði síðast með Dallas Mavericks en hann hefur verið töluvert á flakki síðan hann kom inn í NBA-deildina árið 2015. Síðan þá hefur hann spilað með Philadelphia 76ers, Charlotte Hornets, Milwaukee Bucks, New Orleans Pelicans, Detroit Pistons og Houston Rockets ásamt Dallas.

Wood, sem leikur i stöðu miðherja, segist spenntur fyrir því að vera genginn í raðir Lakers en hann er fæddur á Long Beach í Kaliforníu og því má segja að hann sé kominn heim.

Wood er engin smásmiði en hann er 2.08 metrar á hæð og rúmlega 100 kíló að þyngd. Innkoma hans í mikið breytt Lakers-lið frá því á síðustu leiktíð gerir það að verkum að Davis, ein skærasta stjarna liðsins, getur fært sig til á vellinum og spilað í stöðu kraftframherja en samkvæmt ESPN þá vill Davis gera meira af því á komandi tímabili.

Þó Wood sé ekki stærsta nafnið í bransanum þá telja gárungar hann passa vel inn í leikmannahóp Lakers sem er langt um betur saman settur nú en á sama tíma á síðustu leiktíð þegar liðið endaði á að fara alla leið í úrslit Vestursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×