Enski boltinn

Þurfa að borga sautján þúsund fyrir eiginhandaráritun frá Terry

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
John Terry var lengi fyrirliði Chelsea.
John Terry var lengi fyrirliði Chelsea. getty/John Walton

Það er langt frá því að vera ókeypis að hitta John Terry, fyrrverandi fyrirliða Chelsea. Hann rukkar meira að segja fyrir eiginhandaráritanir.

„Kvöld með John Terry“ er nýr viðburður þar sem aðdáendum gefst tækifæri á að hitta Chelsea-goðið. Það er þó ekki frítt.

Venjulegt verð fyrir miða er 25 pund en borga þarf hundrað pund til að fá eiginhandaráritun frá Terry, eða tæplega sautján þúsund krónur.

Ef fólk vill svo snæða með Terry þarf það að greiða fimm hundruð pund sem jafngildir rétt rúmlega 84.000 íslenskra króna. Inni í þeirri upphæð er líka eiginhandaráritun og mynd með Terry.

Þrátt fyrir hátt verðlag hefur gengið vel að selja inn á viðburðina en fólk virðist vera tilbúið að eyða dágóðri upphæð til að hitta Terry.

Hann sneri aftur til Chelsea í sumar sem þjálfari í unglingaakademíu félagsins. Terry lék með Chelsea stærstan hluta ferilsins og vann fjölmarga titla með félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×