Erlent

Kim heldur til Rúss­lands til fundar við Pútín

Atli Ísleifsson skrifar
Kim Jong-un veifar þegar hann stígur upp í lestina í Pyongyang.
Kim Jong-un veifar þegar hann stígur upp í lestina í Pyongyang. AP

Ríkisfjölmiðill Norður-Kóreu hefur staðfest að leiðtogi landsins, Kim Jong-un, sé kominn til Rússlands þar sem hann mun síðar funda með Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Kim ferðaðist í einkalest frá höfuðborginni Pyongyang síðdegis í gær og hefur sést til hans stíga út úr lestinni í rússnesku borginni Khasan, nærri norður-kóresku landamærunum, áður en förinni var fram haldið.

Rússneskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að Kim væri á leiðinni í opinbera heimsókn til Rússlands, en það er fyrst núna sem norður-kóresk yfirvöld hafa staðfest slíkt. Er um að ræða fyrstu staðfestu ferð Kims til erlends ríkis frá árinu 2019.

Norður-Kóreumenn fylgjast með lest leiðtogans halda norður á bóginn.EPA

Dimitri Peskov, talsmaður Pútíns, segir að fundur þeirra Pútín og Kim muni eiga sér stað á næstu dögum. Er búist við að Kim muni þar sækjast eftir auknum efnahagslegum stuðningi og auknu samstarfi á sviði hernaðartækni, í skiptum fyrir hergögn fyrir rússneska herinn sem myndi nýtast í innrásarstríði þeirra í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×