Þau standa fyrir samsýningunni ÞING/THING í Ásmundarsal og eru viðmælendur í nýjasta þætti af Kúnst.
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að neðan:
Teygja sig langt út í hið óþekkta
Í Ásmundarsal taka Shoplifter og Hrafnkell yfir sýningarsalinn ásamt því að vera með framúrstefnulegt verk í Gryfjunni í samvinnu við fjöllistamanninn Kurt Uenala. Sýningin einkennist af því óþekkta þar sem listamennirnir rannsaka hversu langt þau geta teygt sig en að sögn þeirra hefur samvinnan hefur gengið gríðarlega vel.
„Þessi tilfinning sem við fundum í upphafi var algjörlega rétt. Þetta bara small saman, þetta var engin fyrirhöfn, það var æðislegt flæði, gaman og við að storka hvort öðru aðeins,“ segir Hrafnkell.
Hrafnhildur segist þá hafa gefið honum leyfi til að ýta sér aðeins fram af hárugri bjargbrúninni, en hárverkin hafa verið einkennandi fyrir hennar listsköpun og rekur hún meðal annars sýningarrýmið Höfuðstöðin sem er þakið í litríkum hárum.
„Já fram af hárugri bjargbrún í þoku, það þarf að þreifa sig áfram og falla fram af. Þá koma vængirnir og við bara flugum,“
segir Hrafnkell.
Brothætti listamaðurinn
Samvinnan gekk gríðarlega vel að sögn listamannanna og einkenndist hún af miklu trausti.
„Maður þarf að vera í ákveðinni auðmýkt og maður þarf að treysta viðkomandi fyrir brothætta listamanninum sem maður er,“
segir Hrafnhildur kímin. Hún og Hrafnkell segjast gjörólík í sinni listsköpun en skarast þó oft á óvæntum stöðum. Þá hafi einnig verið mikilvægt að geta verið berskjölduð saman.
„Maður getur leyft sér að vera í óvissu eða vera óöruggur og það er einhver sem að skilur mann,“ segir Hrafnhildur.
Hugmyndavinnan tók á sig mynd þegar Hrafnkell heimsótti Hrafnhildi til New York þar sem hún er búsett. Útgangspunktur sýningarinnar eru samhliða heimar sem þetta tvíeyki segir að sé einmitt þau, tveir samhliða heimar.
„Við erum með sitthvor verkin en svo er ákveðið mengi þar sem við blöndumst.“
Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.