Enski boltinn

Vildi fá Emmu Hayes til að taka við Leicester

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emma Hayes hefur átt mikilli velgengni að fagna með Chelsea.
Emma Hayes hefur átt mikilli velgengni að fagna með Chelsea. getty/Visionhaus

Gary Lineker vildi fá Emmu Hayes, knattspyrnustjóra Chelsea, til að taka við liðinu sínu, Leicester City.

Refirnir féllu úr ensku úrvalsdeildinni í vor eftir níu tímabil í henni. Sem frægt er urðu þeir Englandsmeistarar 2016.

Brendan Rodgers var rekinn sem stjóri Leicester í apríl og við tók Dean Smith en honum tókst ekki að bjarga liðinu frá falli.

Enzo Maresca, fyrrverandi aðstoðarþjálfari Manchester City, var ráðinn stjóri Leicester í sumar en ef Lineker, sem er fyrrverandi leikmaður liðsins, vildi fá annan, eða aðra, til að taka við því, nefnilega Hayes sem hefur náð frábærum árangri með kvennalið Chelsea síðan hún tók við liðinu fyrir ellefu árum.

„Ég veit ekki hvort ég hef sagt ykkur það en í sumar, þegar Leicester var að leita að nýjum stjóra, setti ég mig í samband við félagið varðandi hugmynd sem ég var með. Það var að fá Emmu Hayes frá Chelsea,“ sagði Lineker í hlaðvarpinu sínu, Rest is Football.

„Hún er frábær, fyrsta flokks þjálfari, en ímyndaðu þér að vera fyrsta stóra félagið til að ráða konu sem stjóra. Það hefði vakið jákvæða athygli á félaginu, sérstaklega þegar það var fallið. Þú hefðir selt alla ársmiðana.“

Lineker greindi frá því að Leicester-menn hefðu svarað sér og sagst ekki hafa verið tilbúnir að taka þetta skref á þessum tíma.

Undir stjórn Hayes hefur Chelsea sex sinnum orðið enskur meistari, þar af fjórum sinnum í röð, og unnið ensku bikarkeppnina fimm sinnum.

Leicester hefur farið vel af stað undir stjórn Marescas og er í 3. sæti ensku B-deildarinnar með tólf stig eftir fimm umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×