Erlent

Herinn óskar eftir aðstoð almennings við að finna týnda herþotu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vélin er af gerðinni F-35B en á myndinni sjást þotur af sömu gerð í eigu Bandaríkjamanna og Breta.
Vélin er af gerðinni F-35B en á myndinni sjást þotur af sömu gerð í eigu Bandaríkjamanna og Breta. Getty/Leon Neal

Hermálayfirvöld í Bandaríkjunum hafa biðlað til almennings um aðstoð við að finna herþotu sem týndist einhvers staðar yfir Suður-Karólínu eftir að flugmaðurinn skaut sér úr þotunni.

Flugmaðurinn skaut sér úr vélinni, sem er af gerðinni, F-35B Lightning II, yfir Norður-Charleston í gær eftir „óhapp“. Hann virðist hafa komist frá atvikinu ómeiddur en þotunnar er saknað.

Leitin beinist nú að tveimur vötnum á svæðinu.

Margir furða sig eflaust á því hvernig hægt er að „týna“ heilli herþotu; það gerði að minnsta kosti Nancy Mace, þingkona í Norður-Karólínu.

„Hvernig í fjandanum týnirðu F-35? Er ekki staðsetningarbúnaður í þotunni og hvað... erum við að biðja almenning um að finna þotuna og skila henni?“ spurði hún á X, áður Twitter.

Að sögn yfirvalda tók lögregluþyrla þátt í leit á svæðinu. Rannsókn stendur enn yfir á því hvers vegna flugmaðurinn yfirgaf þotuna. Flugmaður annarar F-35 sem einnig var á flugi snéri aftur án atvika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×