Innlent

Hafa lokað á rakningu í rakningarforritinu C-19

Atli Ísleifsson skrifar
Svona leit smitrakningarappið út, og tilkynningarnar sem notendur fengu frá því.
Svona leit smitrakningarappið út, og tilkynningarnar sem notendur fengu frá því.

Embætti landlæknis hefur lokað á rakningu í smáforritinu Rakning C-19 sem þróað var og notað í smitrakningu í kórónuveirufaraldrinum. Þeir sem eru með forritið í símum sínum hafa margir fengið meldingu þessa efnis í dag.

Ólafur K. Ragnarsson, verkefnastjóri Miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá Embætti landlæknis, segir það vera langt síðan að notast hafi verið við rakningarforritið hér á landi.

„En það sem er að gerast nú er að Apple og Google eru að slökkva á þeim möguleika fyrir símtækin að nota þessa rakningartækni, svokölluð „exposure notifications“. Þetta er í stýrikerfinu á Apple-símum og í Playstore í Android-símum, og er sem sagt búið að slökkva á þeim möguleika núna. Þetta er að gerast í öllum löndum.“

Ólafur segir þetta gert vegna ákvörðunar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, frá í maí síðastliðinn að aflýsa skilgreiningu á COVID-19 sem bráðri ógn við lýðheilsu þjóða. Ástandið hafði þá ríkt síðan í janúar 2020, en slík skilgreining nýtist WHO og alþjóðasamfélaginu við að samhæfa aðgerðir til að stöðva útbreiðslu sjúkdóms á milli landa.

Ólafur segir að með þessu sé ekki verið að henda forritinu eða þeirri tækni sem hafi verið þróuð. Hún sé til og gæti nýst síðar. Hann hvetur þó fólk til að fjarlægja forritið úr símanum.

Rakningarforrit íslenskra heilbrigðisyfirvalda, Rakning C-19, komið í loftið í byrjun apríl 2020, rúmum mánuði eftir að fyrsta kórónuveirusmitið greindist hér á landi.

Skjáskot af skilaboðum sem hafa birst í símum margra í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×