Körfubolti

Bið á félagaskiptum Damian Lillard

Siggeir Ævarsson skrifar
Damian Lillard er ennþá leikmaður Portland
Damian Lillard er ennþá leikmaður Portland Vísir/Getty

Lítið virðist þokast í viðræðum um félagaskipti Damian Lillard frá Portland Trail Blazers en Miami Heat virðist ekki geta boðið neitt bitastætt til að koma skiptunum í kring.

Vísir greindi frá því í gær að Lillard nálgaðist Heat en heimildamenn sem eru vel tengdir inn í deildina segja að forsvarsmenn Portland neiti einfaldlega að ræða við Heat. Eina leiðin til að koma Lillard til Heat virðist því vera að koma þriðja liðinu inn í viðræðurnar og koma af stað skipti hringekju.

Félagaskiptin virðast þó liggja í loftinu en fyrir um 36 tímum þegar þetta er skrifað sagði útvarpsmaðurinn John Gambadoro að skiptin myndu ganga í gegn á næstu 24 tímum. Eitthvað hefur Gambadoro þó misreiknað sig.

Fjölmörg lið hafa verið nefnd sem mögulegir áfangastaðir fyrir Lillard síðustu daga, og heyrist þar mest af Toronto og Chicago en einnig Phoenix Suns og Utah Jazz.

Eitt af því sem flækir þennan kapal er feitur launasamningur Lillard, en hann er 7. launahæsti leikmaður deildarinnar með 45 milljónir dollara í laun á komandi tímabili, sem hefst þann 24. október næstkomandi. Æfingabúðir liðanna hefjast 2. október og flestir reikna með að félagaskiptin verði frágengin þá, hver svo sem niðurstaðan verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×