Fótbolti

Heiðra goðsögnina Bjarna Fel þegar erkifjendur mætast

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bjarni Fel var andlit enska boltans á Íslandi um langt árabil. Þá gerast þeir ekki harðari KR-ingarnir. Bjarni vann til fjölda titla með þeim svörtu og hvítu á sínum tíma.
Bjarni Fel var andlit enska boltans á Íslandi um langt árabil. Þá gerast þeir ekki harðari KR-ingarnir. Bjarni vann til fjölda titla með þeim svörtu og hvítu á sínum tíma. vísir/hag

Til stendur að heiðra goðsögnina Bjarna Felixson, íþróttalýsanda og knattspyrnukempu, á Meistaravöllum á morgun þegar KR-ingar taka á móti Völsurum í Bestu-deild karla í knattspyrnu.

Bjarni Fel féll frá þann 14. september síðastliðinn en hann var einn mesti og þekktasti KR-ingur landsins. Hann spilaði með félaginu á gullaldarárum félagsins og lýsti síðar leikjum karlaliðsins í KR-útvarpinu.

Vonir standa til að fjölmenni verði í Vesturbænum á morgun þar sem minning Bjarna Fel verður haldið hátt á lofti. Flautað verður til leiks klukkan 14 en fólk mætt til að mæta tímanlega og taka þátt í stemmningunni.

Sonja Hlín Arnarsdóttir, markaðs- og viðburðarstjóri KR, segir að allt verði gert til að heiðra Bjarna með viðeigandi hætti. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafi boðað komu sína í vesturbænum. Þá ætti enginn í póstnúmeri 107 að komast hjá því að hugsa til Bjarna um helgina enda verður yfirtaka á strætóskýlum í hverfinu með mynd af Bjarna.

Mínútuþögn verður fyrir leikinn og þá verður inngöngufáni með mynd af Bjarna þegar leikmenn og dómarar ganga inn á völlinn. Systkini Bjarna verða í stúkunni og segist Sonja vonast til að sjá sem flesta KR-inga og annað knattspyrnuáhugafólk sem kunni að meta framlag Bjarna Fel til íslenskrar knattspyrnu.


Tengdar fréttir

Bjarna Fel bregður fyrir í færslu Liver­pool

Í færslu sem birtist á sam­fé­lags­miðla­reikningi enska úr­vals­deildar­fé­lagsins Liver­pool, á dánar­degi í­þrótta­frétta­mannsins og knatt­spyrnu­kapans fyrr­verandi Bjarna Felixs­sonar, má sjá Bjarna bregða fyrir.

„Ég er fréttamaður en ekki einhver spákelling“

Landsmenn minnast íþróttafréttamannsins og knattspyrnukappans fyrrverandi Bjarna Felixsonar með mikilli hlýju. Bjarni var fastagestur á skjám og í útvarpi landsmanna um árabil. Hann tók hlutverk sitt alvarlega þótt alltaf hafi verið stutt í húmorinn. Liverpool birti mynd af Bjarna Fel í gær á tímamótadegi í sögu félagsins.

Bjarni Fel er látinn

Bjarni Felixson, fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta og íþróttafréttamaður, er látinn. Bjarni, sem var þekktur sem Rauða ljónið, var 86 ára gamall og lést í Danmörku, þar sem hann var að sækja jarðarför vinar síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×