Enski boltinn

Newcastle niðurlægði strákana frá Sheffield

Smári Jökull Jónsson skrifar
Svekktur Benie Traore fylgist með markaskorurunum Sven Botman og Dan Burn eftir leikinn í dag.
Svekktur Benie Traore fylgist með markaskorurunum Sven Botman og Dan Burn eftir leikinn í dag. Vísir/Getty

Newcastle United vann í dag 8-0 risasigur á Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Sigurinn er á meðal þeirra stærstu í sögu deildarinnar.

Newcastle hefur ekki farið neitt alltof vel af stað á tímabilinu eftir frábært tímabil í fyrra. Fyrir leikinn í dag hafði liðið aðeins unnið einn sigur í deildinni til þessa og hann kom í fyrstu umferð gegn Aston Villa.

Í dag var hins vegar engin spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Leikmenn Newcastle sýndu strax hvað þeir ætluðu sér og voru komnir í 3-0 í fyrri hálfleik eftir mörk Sean Longstaff, Dan Burn og Sven Botman á fjórtán mínútna kafla um miðjan hálfleikinn.

Í síðari hálfleik keyrðu þeir síðan einfaldlega yfir gestina frá Sheffield. Callum Wilson skoraði á 56. mínútu og á tólf mínútna kafla bættu þeir Anthony Gordon, Miguel Almiron og Bruno Guimares við mörkum og staðan orðin 7-0.

Alexander Isak setti svo punktinn yfir i-ið þegar hann skoraði á 87. mínútu og innsiglaði 8-0 risasigur Newcastle.

Sigurinn er á meðal þeirra stærstu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Fjórum sinnum hefur liðum tekist að vinna 9-0 sigra, síðast liði Liverpool gegn Bournemouth á síðustu leiktíð.

Newcastle hefur áður unnið 8-0 sigur í úrvalsdeildinni. Það var árið 1999 og einnig gegn liði frá Sheffield, í það skiptið Sheffield Wednesday.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×