Erlent

Danir slaufa „ní­tján gráðu reglunni“ í opin­berum byggingum

Atli Ísleifsson skrifar
Lars Aagaard, ráðherra orku- og loftslagsmála í Danmörku, greindi frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar í morgun.
Lars Aagaard, ráðherra orku- og loftslagsmála í Danmörku, greindi frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar í morgun. EPA

Stjórnvöld í Danmörku hafa ákveðið að slaufa reglunni um að einungis megi kynda opinberar byggingar upp í nítján gráður að hámarki vegna orkusparnaðar. Reglunni var komið á fyrir um ári síðan vegna stöðunnar á evrópskum orkumarkaði í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Starfsfólk í opinberum byggingum þurfti margt að mæta vel klætt þegar það mætti til vinnu síðasta vetur til að halda á sér hita, en sú staða mun ekki verða upp nú þegar nýr vetur er í þann mund að ganga í garð.

Orkukostnaður í Danmörku hækkaði mjög mikið síðasta sumar vegna stöðunnar á orkumarkaði og ákvað stjórnin þá að grípa til aðgerða. Var ákveðið að hitastig í almenningsrýmum og í byggingum í eigu ríkisins yrði lækkað úr 22 gráðum í nítján gráður. Leikskólar, spítalar, sjúkrahús og hjúkrunarheimili hafa þó verið undanskilin reglugerðinni.

Lars Aagaard, ráðherra orku- og loftslagsmála í Danmörku, greindi frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar í morgun. „Orkuverð hefur lækkað og orkubirgðastaðan í Evrópu er góð. Ríkisstjórnin dregur því þau tilmæli til baka um nítján gráður í opinberum byggingum.“

Aagaard segir að Danir og fleiri standi þó enn frammi fyrir ýmsum áskorunum í orkumálum og hvetur ríkisstjórnin því alla til að fara sparlega með rafmagn.

„Takmörkun á orkusóun er enn besta tryggingin gegn hækkandi orkuverði og vandamálum þegar kemur að framboði,“ segir Aagaard.


Tengdar fréttir

Danir lækka hitann í al­mennings­rýmum

Danir hafa ákveðið að lækka hitastigið í almenningsrýmum til þess að sporna gegn háu orkuverði í landinu. Neyðarlög voru samþykkt á danska þinginu fyrr í dag þar sem rafmagnsskattur var lækkaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×