Byrjunin á tímabilinu lofaði ekki góðu hjá þessu sögufræga liðið sem hefur yfir að skipa átta heimsmeistaratitlum bílasmiða í Formúlu 1.
McLaren var framan af með einn lélegasta bílinn á rásröðinni og náði aðeins að hala inn 17 stigum á fyrstu níu keppnishelgum tímabilsins.
Það voru fáar vísbendingar á lofti um að tímabil þessa breska liðs myndi verða eftirminnilegt en þrotlaus vinna og fjárfesting í uppfærslu á bíl liðsins er nú farin að skila sér rækilega.
Frá síðustu átta keppnishelgum hefur McLaren náð að hala inn 145 stigum og hefur meðalstigafjöldi liðsins farið úr 2,1 stigi upp í 18,1 stig.
Það hversu langt McLaren er komið á sinni vegferð á tímabilinu kristallast í góðum árangri liðsins í Japans-kappakstrinum um síðastliðna helgi.
Ökumenn liðsins, Bretinn Lando Norris og Ástralinn Oscar Piastri, enduðu báðir á verðlaunapalli. Nánar tiltekið í öðru og þriðja sæti á eftir ríkjandi heimsmeistaranum Max Verstappen, ökumanni Red Bull Racing.
„Framfarirnar hjá liðinu eru ótrúlegar,“ segir Lando Norris, ökumaður McLaren í kjölfar keppnishelgarinnar í Japan. „Ég er yfir mig stoltur af liðinu. Við erum að taka mörg skref fram á hverri einustu keppnishelgi. Við erum að leggja hart að okkur. Ég er viss um að það muni koma krefjandi tímar aftur en þetta er allt í rétta átt hjá okkur.
McLaren er eitt af þessum stóru liðum úr sögu Formúlu 1 og mun án efa vilja koma sér í þá stöðu að geta barist um heimsmeistaratitla á nýjan leik.
Síðasti heimsmeistaratitill liðsins kom í flokki ökumanna árið 2008 en þar var það Bretinn Lewis Hamilton sem ók fyrir liðið. Í flokki bílasmiða varð McLaren síðast heimsmeistari árið 1998. Það ár vann liðið tvöfalt með öflugum bíl, sem og ökumannsteymi skipað þeim Mika Hakkinen og David Coulthard.