Erlent

Fjöldi á­vísana vegna Ozempic og skyldra lyfja hefur fjór­faldast

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lyfin hafa notið gríðarlegra vinsælda á síðustu misserum, jafnvel þótt þau geti haft ýmsar aukaverkanir í för með sér.
Lyfin hafa notið gríðarlegra vinsælda á síðustu misserum, jafnvel þótt þau geti haft ýmsar aukaverkanir í för með sér. epa/Ida Marie Odgaard

Fjölda ávísana vegna lyfja á borð við Ozempic sem skrifað er upp á ársfjórðungslega í Bandaríkjunum hefur fjórfaldast frá 2020. Síðustu þrjá mánuði ársins 2022 voru níu milljón lyfseðlar gefnir út vegna lyfjanna.

Frá þessu greinir Washington Post og vísar í skýrslu rannsóknarfyrirtækisins Trilliant Health.

Ozempic hefur verið samþykkt í Bandaríkjunum sem meðferðarúrræði vegna sykursýki en gögnin benda til þess að því sé einnig ávísað í nokkru magni vegna annarra nota. Ozempic og áþekk lyf hafa notið gríðarlegra vinsælda síðustu misseri sem aðferð við þyngdarstjórnun.

Athygli ber að vekja á því að ofangreindar tölur byggja á tryggingakröfum en talið er að fjöldi einstaklinga greiði fyrir lyfin úr eigin vasa.

Samkvæmt rannsókn Trilliant hefur rétt rúmlega helmingur þeirra sem tekur Ozempic eða áþekk lyf sögu um sykursýki. Þá kemur einnig í ljós að fjöldi virðist hafa fengið lyfjunum ávísað án þess að heimsækja lækni.

Þegar horft er til lyfjamarkaðarins í heild voru Ozempic og skyld lyf, til að mynda Wegovy, í fjórða sæti á lista yfir þau lyf sem Bandaríkjamenn vörðu mestu fjármagni í árið 2021. Lyfin herma eftir hórmóninu GLP-1, sem hægir á tæmingu magans og sendir sedduskilaboð til heilans.

Samkvæmt umfjöllun Washington Post hefur notkun lyfjanna aukist um allt að 480 prósent á einu ári, ef horft er til stórborga landsins. Þá hefur Goldman Sachs greint frá því að 54 önnur þyngdarstjórnunarlyf séu á seinni stigum rannsókna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×