Körfubolti

Verður Kjartan Atli fyrsti þjálfarinn sem fær að fjúka?

Siggeir Ævarsson skrifar
Það var glatt á hjalla í upphitunarþætti körfuboltakvölds
Það var glatt á hjalla í upphitunarþætti körfuboltakvölds S2 Sport

Nýliðum Álftaness er spáð góðu gengi í Subway-deild karla í vetur en liðið hefur styrkt sig mikið í sumar. Sérfræðingar Körfuboltakvölds fóru yfir stöðuna á Álftanesi og Teitur velti því upp hvort Kjartan Atli yrði mögulega fyrsti þjálfarinn til að fá reisupassann í vetur.

Kjartan Atli Kjartansson stýrði liði Álftaness til sigurs í 1. deildinni síðasta vor og lét í kjölfarið af störfum sem umsjónarmaður Körfuboltakvölds. Stefán Árni Pálsson tók við keflinu og tók langt og innilegt viðtal við Kjartan sem fékk Teit Örlygsson til að hugsa.

„Þið voruð svo hamingjusamir þarna tveir í restina, þá hugsaði ég: „Kannski verður Kjartan fyrsti þjálfarinn sem verður rekinn og þá verður Stebbi líka rekinn!“ Þið verðið ekki svona ánægðir þá.“

Klippa: Upphitun Subway körfuboltakvölds - Verður Kjartan Atli rekinn fyrstur?

Stóra spurningamerkið í liði Álftaness er landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson, sem hefur verið mikið meiddur síðustu ár.

„Við köllum hann HHP, ég kalla hann stundum hHHP, heill Haukur Helgi Pálsson er geggjaður leikmaður. “ - sagði Teitur Örlygsson

„En er þetta ekki risavaxinn „X-factor“ aftur á móti í liðinu?“ Spurði Stefan Árni á móti?

Sérfræðingarnir voru sammála um að Haukur Helgi myndi styrkja liðið á báðum endum vallarins óháð því hversu heill hann er. Meira að segja 75 prósent heill væri hann einn besti leikmaðurinn í deildinni. Þá væri hann búinn að koma sér vel inn í samfélagið á Álftanesi sem væri ómetanlegt.

Hópurinn hjá Álftanesi er stór og koma Hauks Helga og Harðar Axels gefur mönnum byr undir báða vængi og ljóst að hin liðin í deildinni reikna með þeim sterkum í vetur.

„Engin pressa en allt fyrir neðan 4. sæti er vonbrigði fyrir þennan hóp.“ sagði Sævar Sævarsson léttur í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×