Enski boltinn

Chelsea fær loks auglýsingu framan á treyjuna

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Nicolas Jackson sést hér fagna marki í auglýsingalausri treyju.
Nicolas Jackson sést hér fagna marki í auglýsingalausri treyju. Jacques Feeney/Getty Images

Chelsea hefur spilað í búningi án auglýsinga allt þetta tímabil, liðið tilkynnti það í júlí að treyja þeirra yrði auglýsingalaus eftir að samstarfssamningur við fjarskiptafyrirtækið 3 UK rann út. 

Nú hafa samningar náðst við Infinite Athlete sem mun auglýsa sig framan á treyjum Chelsea það sem eftir er tímabils. Samningar náðust í höfn nógu tímanlega til að treyjan yrði frumsýnd þegar úrvalsdeild kvenna á Englandi hefst á morgun. Þar mætir kvennalið Chelsea Tottenham í opnunarleiknum. 

Infinite Athlete er nýstofnað fyrirtæki sem varð til við samruna tveggja annarra fyrirtækja, annað þeirra hafði nýlega skrifað undir sjö ára samstarf við Chelsea. Fjárfestingasjóðurinn Silver Lake, sem á stóran hlut í City Football Group, eru meðal fjárfesta í fyrirtækinu. 

Áður hafði samkomulag náðst við Paramount Plus, streymisþjónustu sem sjá má á búningi Inter Milan, en því var hafnað af ensku úrvalsdeildinni vegna árekstra við aðrar streymisveitur sem deildin er í samstarfi við. 

Chelsea mætir Fulham í sjöundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar næsta mánudag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×