Blikar spila sinn fyrsta heimaleik í Sambandsdeildinni á fimmtudag og fara leikir liðsins fram á Laugardalsvelli þar sem Kópavogsvöllur uppfyllir ekki kröfur UEFA. Síðasti heimaleikur Blika er seint í nóvember og því mikið starf fram undan að halda grasinu góðu langt inn í íslenskan vetur.
„Við þurfum að halda honum á lífi og reyna að búa til smá sprettu í honum, og koma í veg fyrir að hann frjósi svo hann verði spilhæfur hérna í nóvember,“
„Besta leiðin er undirhiti en því miður höfum við hann ekki í dag. Það hefði verið besta lausnin,“ segir Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóri á Laugardalsvelli.
Aðstæðurnar erfiðar
Farið er að hausta og því vöxtur vallarins gott sem búinn í ár. Viðhaldsvinna fremur en ræktun er fram undan.
„Gróandinn og sprettan eru að minnka. Núna erum við aðallega að koma í veg fyrir að hann skemmist. Við erum að dúndra fræjum út og vona að þau spíri. Það er að hægjast á öllu núna með næturfrosti, það kólnar og meira myrkur. Það er ekkert með okkur í þessu en við munum gera okkar besta fyrir Blikana í nóvember,“
Heljarinnar vinna er því fram undan hjá vallarstarfsfólki að halda vellinum við svo langt inn í veturinn. En hvaða búnaður er notaður til verksins?
„Það eru til nokkrar aðferðir en við höfum reynslu af svona hitapulsu sem við notuðum 2013 og árið 2020 þegar við áttum að fara í umspil hérna í mars. Við höfum verið í sambandi við það fyrirtæki og þeir eru reiðubúnir að koma inn í þetta verkefni með okkur,“
„Vonandi þurfum við ekki að nota hana og vonandi verður nóvember blíður við okkur, verður hlýr og góður,“ segir Kristinn.
En hver er kostnaðurinn af slíku?
„Öllu fylgir þessu kostnaður. Þetta er ekkert frítt, við erum að leigja þetta en vonandi náum við að nýta þennan búnað til þess að völlurinn verði leikfær.“
„Kostnaðurinn skiptir einhverjum milljónum en það er svo sem ekki mitt að hugsa um þann kostnað.“ segir Kristinn.