Enski boltinn

Mar­tínez þarf að fara undir hnífinn á ný

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lisandro Martinez spilar ekki meira árið 2023.
Lisandro Martinez spilar ekki meira árið 2023. EPA-EFE/Peter Powell

Lisandro Martínez, miðvörður Manchester United, er aftur í leið á aðgerð á rist. Talið er að hann verði frá út árið hið minnsta.

Martínez gekk í raðir Man United sumarið 2022 og eftir erfitt upphaf á Englandi þá sýndi hann sínar bestu hliðar og var ein helsta ástæða góðs gengis Rauðu djöflanna á síðustu leiktíð.

Undir lok tímabilsins þurfti hann hins vegar að fara í aðgerð vegna meiðsla á rist og missti því af mikilvægum leikjum, þar á meðal úrslitum enska bikarsins þar sem United tapað naumlega gegn Manchester City.

Martínez var mættur aftur í lið Man Utd þegar yfirstandandi tímabil hófst en var ólíkur sjálfum sér í þeim leikjum sem hann spilaði og nú hefur verið staðfest að hann þarf að fara undir hnífinn á nýjan leik.

Talið er að hann verði frá í þrjá mánuði og því má reikna með að hann spili ekki meira á árinu. Um er að ræða mikið högg fyrir Man United sem hefur farið einstaklega illa af stað í ensku úrvalsdeildinni en liðið hefur aðeins unnið þrjá leiki af sjö.

Þá töpuðu Rauðu djöflarnir 4-3 gegn Bayern München í Meistaradeild Evrópu. Næsti leikur liðsins er gegn Galatasaray í sömu keppni. Þurfa lærisveinar Erik ten Hag nauðsynlega á sigri að halda en það er ljóst að liðið þarf að gera það án slátrarans frá Argenínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×