Enski boltinn

Zlatan gagn­rýnir nálgun Ten Hag hjá Manchester United

Aron Guðmundsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic spilaði á sínum tíma með Manchester United. Þó ekki undir stjórn núverandi knattspyrnustjóra félagsins, Erik ten Hag.
Zlatan Ibrahimovic spilaði á sínum tíma með Manchester United. Þó ekki undir stjórn núverandi knattspyrnustjóra félagsins, Erik ten Hag. Vísir/Samsett mynd

Sænska knattspyrnugoðsögnin Zlatan Ibrahimovic, fyrrum leikmaður Manchester United, tjáir sig um stöðu síns fyrrum félags í viðtali við breska fjölmiðlamanninn Piers Morgan og ræðir þar ansi ítarlega stöðu hollenska knattspyrnustjórans Erik ten Hag.

„Hann kemur inn í allt annað um­hverfi þegar að hann fer frá Ajax til Manchester United. Ég hef verið á mála hjá báðum fé­lögum. Ajax er fé­lag með marga hæfi­leika­ríka og efni­lega leik­menn. Þar ertu ekki með stór­stjörnur líkt og hjá Manchester United,“ segir Zlatan í við­tali við Pi­ers Morgan.

„Hver er reynsla þessa knatt­spyrnu­stjóra? Hann hefur unnið með ungum hæfi­leika­ríkum og efni­legum leik­mönnum. Þegar að hann kemur til Manchester United þá er hann að koma inn í fé­lag með allt annað hugar­far. Leik­mennirnir þar eiga að vera stór­stjörnur. Þú getur ekki leyft þér að koma eins fram við þær líkt og þú kemur fram við ungu leik­mennina.“

Erik ten Hag er undir mikilli pressu hjá Manchester United sem hefur ekki farið vel af stað í ensku úr­vals­deildinni á yfir­standandi tíma­bili. Manchester United er sem stendur í 10.sæti deildarinnar með níu stig eftir sjö leiki.

„Hversu langan tíma þú gefur knatt­spyrnu­stjóranum er á­kvörðun sem er á for­ræði eig­anda fé­lagsins en ef þú hlustar á raddir stuðnings­manna fé­lagsins þá er ekki mikill tími til stefnu. Stuðnings­mennirnir vilja vinna og ég skil það mjög vel vegna þess að hefðin hjá fé­laginu er að vinna.“

Ekki bæti úr skák fyrir Manchester United að á meðan fé­lagið berst í bökkum með úr­slit innan vallar eru ná­grannarnir í Manchester City að upp­lifa mikið blóma­skeið.

„Í svona stöðu þarftu plan. Þú þarft á­kveðna veg­ferð til að fylgja. Það er eins og það sé eitt­hað plan þarna undir­liggjandi en svo fer allt í háa­loft þegar úr­slitin falla ekki með þér. Annað hvort trúirðu á þessa veg­ferð sem þú ert á eða ekki. Ég held að hann (Ten Hag) sé að fylgja tveimur mis­munandi stefnum akkúrat núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×