Enski boltinn

Grættu þjálfarann sinn eftir leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emma Hayes hefur gert frábæra hluti með Chelsea liðið undanfarinn áratug.
Emma Hayes hefur gert frábæra hluti með Chelsea liðið undanfarinn áratug. EPA-EFE/JOHAN NILSSON

Emma Hayes hefur gert frábæra hluti með kvennalið Chelsea undanfarin ár og liðið vann meðal annars tvöfalt á síðustu leiktíð.

Chelsea liðið hóf titilvörnina með sigri á Tottenham á Stamford Bridge en þjálfarinn átti þó erfitt með sig í leikslok.

Ástæðan var gjöf sem hún fékk frá Millie Bright og öðrum leikmönnum í Chelsea liðinu.

Eftir leikinn var Hayes nefnilega kölluð fram og fékk þá treyju að gjöf með „Papa 82“ á bakinu.

Treyjan var til minningar um Sid, föður Emmu Hayes, sem lést í síðustu viku, 82 ára gamall.

Hayes bað leikmenn sína um að heiðra minningu föður síns með góðri frammistöðu en stelpurnar hennar gerðu meira en það.

Tilfinningarnar báru Hayes ofurliði í kjölfarið og henni tókst ekki að halda aftur af tárunum.

Chelsea hefur unnið enska meistaratitilinn undanfarin fjögur ár en undanfarin þrjú ár hafði liðinu mistekist að vinna fyrsta leikinn. Liverpool vann Chelsea í fyrstu umferðinni í fyrra og liðið tapaði fyrir Arsenal árið áður. Þá gerði liðið jafntefli á móti Manchester United 2020. Mark undir lokin frá Mörthu Thomas sá til þess að nú vann Chelsea loksins fyrsta leikinn sinn.

„Þetta var mjög erfitt fyrir mig í dag. Ég elska leikmennina mína af því að þær átta sig á aðstæðum og hugsuðu vel um mig á mjög erfiðum tíma. Þetta var erfitt fyrir alla mína fjölskyldu og ég vildi bara komast í gegnum þetta,“ sagði Emma Hayes eftir leik.

Emma Hayes hefur gert Chelsea sex sinnum að enskum meisturum og fimm sinnum að enskum bikarmeisturum en hún hefur stýrt liðinu frá því í ágúst 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×