Tillagan kemur upprunalega frá António Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna en hún var formlega lögð fram af ríkisstjórnum Bandaríkjanna og Ekvador. Sendiherrar þrettán ríkja greiddu atkvæði með tillögunni. Sendiherrar Rússlands og Kína sátu hjá.
New York Times segir viðræður við sendiherra Rússlands og Kína um tillöguna hafa tekið töluverðan tíma og að samþykkt öryggisráðsins hafi verið endurskrifuð nokkrum sinnum vegna mótmæla frá þeim.
Hve fjölmennt lið verður sent liggur ekki fyrir. Yfirvöld í Kenía hafa lagt til að senda um þúsund lögregluþjóna og yfirvöld í Jamaíka, á Bahamas-eyjum og í Antígva og Barbúda hafa einnig heitið því að senda menn en ekki liggur fyrir hvort bara verði sendir lögregluþjónar eða hvort til standi að senda hermenn til Haítí.
Ekki liggur heldur fyrir hvenær mennirnir verða sendir til Haítí en Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt að það gæti gerst á næstu mánuðum. Þá hefur AP fréttaveitan eftir Alfred Mutua, utanríkisráðherra Kenía, að það gæti gerst á næstu tveimur eða þremur mánuðum. Kannski í janúar. Verið sé að þjálfa yfirmenn í frönsku fyrir verkefnið.
Mennirnir eiga að vera í Haítí í minnst ár og á taka ákvörðun um framlengingu eftir um níu mánuði. Þá verður verkefnið fjármagnað með frjálsum framlögum en Bandaríkin hafa heitið 200 milljónum dala til þess.

Óöld um árabil
Óreiða hefur lengi einkennt Haítí en hún hefur náð nýjum hæðum frá því Jovenelle Moise, forseti landsins, var myrtur á heimili sínu árið 2021.
Sameinuðu þjóðirnar segja þúsundir hafa verið myrta af glæpamönnum á undanförnu áru og að heilu hverfin í Port au Prince hafi verið tæmd af íbúum sem flúið hafa undan glæpagengjum, sem hafa myrt fólk, rænt og kúgað í massavís.
Glæpagengi Haítí eru nánast hömlulaus og skipta Port-au-Prince og stórum hlutum landsins sín á milli. Í fyrra var talið að um það bil níu til tíu þúsund lögregluþjónar hafi starfað á Haítí, sem er hlutfallslega mjög lítið miðað við að íbúar landsins eru rúmlega ellefu milljónir.
Sjá einnig: Mótmæltu eftir grimmilegt morð á sex lögregluþjónum
Glæpagengi Haítí er bæði mun fjölmennari og betur búin en lögregla landsins. Stjórnmálamenn hafa í gegnum árin dælt peningum í mismunandi gengi og beitt þeim gegn pólitískum andstæðingum sínum.
Fátækt er mikil í Haítí en meira en helmingur þjóðarinnar þénar minna þrjú hundruð krónur á dag.
Starfandi ríkisstjórn Haítí kallaði fyrir tæpu ári eftir alþjóðlegri aðstoð við að reyna að koma böndum á glæpagengin. Ariel Henry, forsætisráðherra landsins, þakkaði öryggisráðinu, Kenía og framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í gær, en sagði að ekki hefði verið hægt að bíða lengur.
Vonast er til þess að liðsaukinn muni gera yfirvöldum í Haítí kleift að halda loks kosningar en þeim hefur ítrekað verið frestað frá því Moise var myrtur.