Enski boltinn

„Að Chelsea hafi eytt milljarði og sé samt hálfu liði frá því að berjast um titilinn er fáránlegt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Chelsea fagna marki Armandos Broja gegn Fulham.
Leikmenn Chelsea fagna marki Armandos Broja gegn Fulham. getty/Nigel French

Þrátt fyrir að hafa eytt rúmlega milljarði punda í leikmannakaup síðan Todd Boehly og Behdad Eghbali keyptu Chelsea segir Jamie Carragher, sparkspekingur Sky Sports, að liðið sé ekki enn nógu gott.

Chelsea vann mikilvægan sigur á Fulham, 0-2, í lokaleik 7. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í gær. Liðið fór það úr 15. sæti deildarinnar í það ellefta.

Mikil meiðsli herja á leikmannahóp Chelsea en þrátt fyrir það segir Carragher að Bláliðar séu langt frá því að geta keppt um Englandsmeistaratitilinn.

„Þú getur sjaldan stillt upp þínu sterkasta liði. Þeir eru í meiðslavandræðum en ef þeir geta stillt liðinu sínu reglulega upp tel ég að þeir geti barist um Meistaradeildarsæti. En ef þú segir mér að þetta sé besta liðið þeirra eftir að hafa eytt milljarði punda þurfa þeir samt fjóra leikmenn til að ná Manchester City,“ sagði Carragher.

„Framherjinn [Nicolas Jackson] er ekki nógu góður, sömu sögu er að segja af markverðinum [Robert Sánchez] og þeir þurfa líka miðvörð og miðjumann. Að Chelsea hafi eytt milljarði og sé samt hálfu liði frá því að berjast um titilinn er fáránlegt.“

Jackson tók út leikbann gegn Fulham í gær. Hann hefur aðeins skorað eitt deildarmark fyrir Chelsea síðan félagið keypti hann frá Villarreal í sumar. Sánchez hélt hreinu í gær og hefur aðeins fengið á sig sex mörk í sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Næsti leikur Chelsea er gegn Burnley á Turf Moor á laugardaginn.


Tengdar fréttir

Fyrir­liðinn vonast til að Chelsea byggi ofan á sigrana tvo

Chelsea vann Fulham 2-0 á útivelli í eina leik ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Liðið hefur nú unnið tvo leiki í röð í öllum keppnum og vonast Conor Gallagher, fyrirliði liðsins, til að hægt sé að byggja ofan á það eftir erfiða byrjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×