Tíska og hönnun

„Það getur verið skrýtið að venjast gjör­breyttum líkama“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Vaka Njálsdóttir er viðmælandi vikunnar í Tískutali.
Vaka Njálsdóttir er viðmælandi vikunnar í Tískutali. Birnir

Hagfræðingurinn, framleiðandinn og tískuskvísan Vaka Njálsdóttir segist alltaf klæða sig eftir fíling og sækir innblásturinn alls staðar að. Hún segir gríðarlega mikilvægt að klæða sig eftir veðri, sérstaklega þar sem íslenski veturinn er nú framundan, en Vaka er viðmælandi í Tískutali.

Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Vaka Njálsdóttir er mikil tískuskvísa og hefur leikið sér mikið með meðgöngustíl sinn.Aðsend

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Hvað hún fer í marga hringi! Það er alltaf jafn gaman að fylgjast með því þegar ný trend eru að byrja, að sjá flíkur koma aftur í tísku sem ég hélt að myndu aldrei fá að lifa aftur.

Vaka segir skemmtilegast að sjá hvað tískan fer mikið í hringi.Aðsend

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Ég á mér sjaldan eina uppáhalds flík, en það fyrsta sem mér dettur í hug er bleika kápan mín sem er í miklu uppáhaldi. Ég var búin að manifesta bleika kápu í marga daga og allt í einu var ég komin með þessa fallegu bleiku kápu í hendurnar sem var eins og sniðin á mig en mamma kærasta míns gaf mér hana. 

Það er einhver skemmtileg orka í kápunni og dagurinn verður alltaf aðeins skemmtilegri þegar ég er í henni.
Bleika kápan sem er í miklu uppáhaldi hjá Vöku. Aðsend

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Mér finnst mjög gott að vera komin með hugmynd að dressi daginn áður en ég fer á koddann á kvöldin, aðallega svo að morgnarnir séu aðeins rólegri og þægilegri. Það kemur auðvitað fyrir að ég vakna ekki í sama fýling og dressið sem ég valdi, en þá bara breyti ég aðeins til. 

Ef ég er eitthvað smá hikandi þá fæ ég oft loka álit frá kæró, sem kemur alltaf mjög sterkur inn!
Birnir, kærasti Vöku, er henni gjarnan innan handar ef hana vantar lokaálit á fatnaði sínum.Aðsend

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Einfaldur, þægilegur og getur verið mjög rómantískur. Ég klæði mig algjörlega eftir fíling, suma daga langar mig bara að vera í víðum buxum, kósí peysu og strigaskóm en aðra daga vil ég stríla mig í kjóla, dragt og hæla.

Vaka lýsir stíl sínum sem einföldum og þægilegum sem getur líka verið rómantískur.Aðsend

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Ég hef alltaf haldið í einhvern ákveðin stíl sem ristir svona meira á dýptina hjá sjálfri mér. Ég hef alltaf haft gaman að gömlum kjólum, hvítum skyrtum með munstrum og pelsum. Þetta eru svona flíkur sem ég hef alltaf leitað mikið í frá því ég man eftir mér. 

Annars þá hef ég þurft að aðlaga mig aðeins að öðrum stíl eftir að ég varð ólétt en það leið ekki langur tími þar til ég passaði ekki í neinar buxur og þurfti að hugsa aðeins út fyrir boxið. Það getur verið skrýtið og stundum erfitt að venjast gjörbreyttum líkama og aðlaga sig að nýjum og fallegum líkamsvexti. 

Vaka þurfti að aðlaga stíl sinn að nýjum líkama eftir að hún varð ólétt en hún er dugleg að leyfa kúlunni að njóta sín.Aðsend

Ég er búin að elska að vera í low waist buxum og pilsum, fallegum hlýrabolum, magastuttum peysum, gollum eða jökkum. Svo hef ég klæðst þröngum kjólum til að lefa bumbunni og öllum fallegu línunum að njóta sín. 

Fyrst og fremst hef ég hugsað um að mér líði vel í fötunum mínum og hvernig ég get notið þess að vera ólétt á hverjum degi.
Vaka segist fyrst og fremst hugsa um að líða vel í fötunum sínum á meðgöngunni og hvernig hún geti notið þess að vera ólétt. Aðsend

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Frá öllu mögulegu. Fólki, stöðum og hlutum.

Vaka sækir tískuinnblásturinn í ýmsar áttir.Aðsend

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Það eina sem mér finnst kjánalegt er að klæða sig ekki eftir veðri. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga núna þegar veturinn nálgast á Íslandi, fjárfesta í góðum og þykkum yfirhöfnum, fallegum húfum eða hettum. Ég á alltaf til grófa og vatnshelda vetrarskó til að komast á milli staða á verstu dögunum.

Það er mikilvægt fyrir Vöku að klæða sig eftir veðri og spila yfirhafnir þar mikilvægt hlutverk.Aðsend

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Ég tók einn vetur þar sem ég var dugleg að fara í þröngan hlébarða samfesting þegar ég fór út á djammið. Það var mjög skemmtileg flík og gaf mér ákveðinn karakter stundum. Hún er örugglega eftirminnileg þar sem ég á hana ekki lengur í dag og hugsa stundum til hennar.

Vaka hefur gaman að tjáningarformi tískunnar og er dugleg að fylgja innsæinu.Aðsend

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Alltaf að klæða sig fyrir þig og fylgja innsæinu. Þú veist alltaf hvað sjálfinu finnst flott og skemmtilegt. Það þarf bara að muna að hlusta á það!

Vaka segir mikilvægt að klæða sig alltaf fyrir sig. Aðsend

Hér er hægt að fylgjast með Vöku á samfélagsmiðlinum Instagram


Tengdar fréttir

„Reyni helst að vera ekki á rassinum“

Rithöfundurinn og lífskúnstnerinn Kamilla Einarsdóttir segist ekki vita nokkurn skapaðan hlut um tísku en finnst mikilvægast að föt sé þægileg, hlý og örugg. Helsta tískureglan hennar er að vera helst ekki á rassinum og kaupa flíkur sem eru með marga vasa því þeir geri lífið skemmtilegra. Kamilla er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

„Lífið er of stutt til að eyða miklum tíma fyrir framan spegilinn“

Töffarinn og lífskúnstnerinn Sóley Kristjánsdóttir starfar sem vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni ásamt því að vera plötusnúður. Hún elskar tjáningarmáta tískunnar og nýtur þess að geta verið alls konar í klæðaburði. Sóley er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

Húfan sem fór í klósettið hélt samt áfram að vera í uppáhaldi

Rithöfundurinn, heimspekingurinn og lífskúnstnerinn María Elísabet Bragadóttir segir skemmtilegt að vera opin fyrir innblæstri tískunnar og er mikið fyrir góðar yfirhafnir. Henni finnst vandaðar flíkur standast tímans tönn og reynir að velja sér flíkur með það í huga að geta notað þær árum saman. María Elísabet er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

„Í dag vil ég helst vera í minni eigin tísku­búbblu“

MRingurinn og tískuáhugakonan Helga Þóra Bjarnadóttir elskar hvað tískan er breytileg og hvað hún getur haft jákvæð áhrif á líðan fólks. Hún segir mikilvægt að velja föt sem láta manni líða vel í staðinn fyrir að elta stöðugt tískubylgjur og hefur lært það með aldrinum. Helga Þóra er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

„Það kom aldrei til greina að ég færi að klæða mig eins og allir hinir“

Leiklistaneminn, lífskúnstnerinn og einn best klæddi Íslendingurinn árið 2022 Álfgrímur Aðalsteinsson hefur alltaf farið eigin leiðir í fatavali. Í grunnskóla var hann að eigin sögn lagður í hálfgert einelti fyrir einstakan stíl sinn en lét það ekki stoppa sig og segir mikilvægt að hafa pláss til að gera tilraunir og finna eigin stíl. Álfgrímur er viðmælandi vikunnar í Tískutali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×