Fótbolti

Nýja hetjan í Madrid: „Svolítið af Di Stefano, svolítið af Zidane“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jude Bellingham fagnar einu marka sinna fyrir Real Madrid.
Jude Bellingham fagnar einu marka sinna fyrir Real Madrid. EPA-EFE/David Borrat

Jude Bellingham hefur byrjað frábærlega með liði Real Madrid en enski miðjumaðurinn var enn á ný á skotskónum með Real liðinu í Meistaradeildinni í gær.

Bellingham var bæði með mark og stoðsendingu í 3-2 sigri á ítölsku meisturunum í Napoli en hvað eftir annað hefur hann tryggt sínu liði sigur í upphafi leiktíðar.

Bellingham er nú kominn með 8 mörk og 3 stoðsendingar í 9 leikjum á tímabilinu og hann er miðjumaður.

Markið sem hann skoraði á móti Napoli í gær var af betri gerðinni og eru sumir á því að það verði tilnefnt til Puskas verðlaunanna sem flottasta mark ársins.

Bellingham fékk boltann fjörutíu metra frá marki, fór fram hjá mörgum varnarmönnum Napoli og skoraði síðan með laglegu skoti.

Real keypti hann á 103 milljónir evra frá Borussia Dortmund í sumar en þessi tuttugu ára leikmaður hefur heldur betur staðið undir þeim verðmiða.

Spænsku miðlarnir voru líka að missa sig í aðdáun sinni í morgun.

„Svolítið af Di Stefano, svolítið af Zidane“ hljómaði ein og „Þetta var eins og Maradona“ hljómaði önnur.

„Ég hafði trú á sjálfum mér en ég vissi ekki að þetta yrði svona gott. Ég á teyminu og liðsfélögunum mikið að þakka,“ sagði Jude Bellingham eftir leikinn.

Þegar hann var spurður út í samanburð við Diego Maradona þá var Bellingham fljótur að tala hlutina niður.

„Það er aðeins of mikið. Þetta var flott mark. Af því sem ég hef séð á YouTube og í heimildarmyndum þá hafði hann aðeins meiri gæði en ég, eða miklu meiri réttara sagt. Ég er bara að reyna að skila til liðsins með hætti Jude,“ sagði Bellingham.

„Þetta er kannski eitt af mínum bestu mörkum. Við vorum að mæta frábæru liði og á frábærum leikvangi. Mikilvægast er að vinna leikinn og að ég náði að skila mínu þar,“ sagði Bellingham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×