Fótbolti

At­letico og Shaktar komu bæði til baka og tryggðu sér sigra

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn Atletico fagna öðru marki Alvaro Morata í leiknum gegn Feyenoord í dag.
Leikmenn Atletico fagna öðru marki Alvaro Morata í leiknum gegn Feyenoord í dag. Vísir/Getty

Atletico Madrid vann góðan sigur á Feyenoord í E-riðli Meistaradeildarinnar í dag en leiknum er nýlokið. Þá er Shaktar Donetsk komið á blað eftir útisigur í Belgíu.

Atletico Madrid gerði jafntefli við Lazio í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar fyrir skömmu og þurfti því á þremur stigum að halda gegn Feyenoord í dag sem vann sigur í sínum leik gegn Celtic í fyrstu umferðinni.

Leikurinn í dag var fjörugur. Mario Hermoso skoraði sjálfsmark á 7. mínútu og kom Feyenoord í 1-0 en Alvaro Morata jafnaði fimm mínútum síðar.

Davnid Hancko kom Feyenoord í 2-1 á 34. mínútu en undir lok fyrri hálfleiks jafnaði Antoine Griezmann metin með frábæru markið og staðan í hálfleik 2-2.

Í síðari hálfleik var það síðan heimaliðið frá Madrid sem tryggði sér sigurinn. Morata skoraði sitt annað mark strax í upphafi hálfleiksins og tryggði liðinu 3-2 sigur. Atletico er því komið í efsta sæti riðilsins með fjögur stig og er einu stigi á undan Feyenoord. Celtic og Lazio mætast í Skotlandi í kvöld.

Í Belgíu vann Shaktar Donetsk góðan 3-2 útisigur á Royal Antwerp. Arbnor Muja og Michel Balikwisha komu Antwerp í 2-0 í fyrri hálfleik en úkraínska liðið frá Donetsk átti magnaða endurkomu í síðari hálfleiknum.

Danylo Sikan minnkaði muninn á 48. mínútu, Yaroslav Rakitskiy jafnaði á þeirri 71. og Sikan tryggði sigurinn fimm mínútum síðar. Toby Alderweireld fékk tækifæri til að jafna metin í uppbótartíma en náði ekki að skora úr vítaspyrnu.

Lokatölur 3-2 og fyrstu stig Shaktar því komin í hús en Antwerp tapaði gegn Porto í sínum fyrsta leik. Porto mætir Barcelona í Portúgal nú á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×