Innlent

Ekki með tæki og tól til að takast á við eld í göngum á Trölla­­skaga

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá æfingu slökkviliðsins í Strákagöngum í september.
Frá æfingu slökkviliðsins í Strákagöngum í september. Slökkvilið Fjallabyggðar

Slökkvi­liðs­stjóri Fjalla­byggðar segir slökkvi­liðið ekki eiga nein tæki og tól til að bregðast við komi upp eldur í jarð­göngum í um­dæmi slökkvi­liðsins á Trölla­skaga. Hann segir að Vega­gerðinni beri að bregðast við.

„Hún sýnir bara stöðuna ná­kvæm­lega eins og hún er,“ segir Jóhann K. Jóhanns­son, slökkvi­liðs­stjóri Fjalla­byggðar um saman­tekt sína eftir æfingu slökkvi­liðsins sem haldin var í Stráka­göngum í septem­ber.

Þar kemur fram að æfingin hafi leitt í ljós að slökkvi­lið Fjalla­byggðar sé ekki í stakk búið til þess að takast á við eld, mikinn reyk eða mengunar- og/eða eitur­efna­slys í jarð­göngum fjarri gangna­endum.

„Eins og fram kemur í samantektinni, að þá eru 24 prósent af jarðgangnakerfi Íslands að finna á Tröllaskaga. Við erum með rétt tæplega fjórðunginn. Við höfum engin tól og tæki til að komast inn í göng til þess að bregðast við ef eitthvað kemur upp.“

Slökkvi­liðs­bílar úr sér gengnir

Jóhann segir slökkvi­lið síðast hafa fengið fjár­magn frá Vega­gerðinni til kaupa á búnaði árin 2010 og 2011 þegar Héðins­fjarðar­göng hafi verið opnuð. Vega­gerðin hafi fram að því ekkert lagt til þegar fyrri göng voru byggð, Stráka­göng árið 1967 og Múla­göng árið 1995.

„En bílarnir sem keyptir voru þegar Héðins­fjarðar­göng voru opnuð, voru gamall flug­vallarslökkvi­bíll með tíu þúsund lítra af vatni og svo vöru­bíll sem var breytt í tank­bíl Þessir bílar eru í dag bara orðnir 35 til 40 ára gamlir. Þeir eru góðir til síns brúks en þeir hafa ekkert erindi inn í jarð­göng ef eitt­hvað kemur upp.“

Jóhann K Jóhannsson, segist vonast til þess að umræðan nú fái Vegagerðina að borðinu.Vísir/Vilhelm

Segir Vega­gerðinni bera að út­vega búnað

Jóhann segir ljóst að slökkvi­liðið þurfi í hið minnsta tvo sér­út­búna slökkvi­liðs­bíla til að geta tekist á við að­stæður sem upp geti komið í jarð­göngum.

„Það er alveg ljóst að það þarf að bregðast við með ein­hverjum hætti. Þetta eru veru­legir fjár­munir sem við þurfum, af því að við þurfum ekki bara einn bíl, við þurfum tvo bíla. Við þurfum að geta verið með við­bragð sitt­hvoru megin við göngin. Og faktíst séð jafn­vel þrjá ef við ætlum að vera með bíl líka á Dal­vík.“

Jóhann segist ekki hafa fengið skýr svör frá Vega­gerðinni vegna málsins. Hann segir hins vegar alveg ljóst að Vega­gerðinni beri að út­vega slökkvi­liðinu til þess bæran búnað, sam­kvæmt reglu­gerð um bruna­varnir í sam­göngu­mann­virkjum nr. 614/2004. Hann segir Vega­gerðina hins vegar ekki fallast á þá túlkun hingað til þar sem að um sé að ræða endur­nýjun búnaðar.

Í ljós kom á æfingu slökkviliðsins að öryggissvæði við Strákagöng, Siglufjarðarmegin, er helst til of lítið þegar stórir bílar koma á vettvang. Slökkvilið Fjallabyggðar

Önnur slökkvilið hafi fengið búnað

„Ég vona að þessi um­ræða komi til með að fá menn alla­vega að borðinu. Ég veit að Al­manna­varnir hafa á­hyggjur af þessu og ég veit að Hús­næðis-og Mann­virkja­stofnun hefur á­hyggjur.“

Hann segir ljóst að for­dæmi séu fyrir því að Vega­gerðin út­vegi slökkvi­lið tækja­búnað sér­stak­lega vegna jarð­gangna. Ljóst sé að slökkvi­lið Fjalla­byggðar hafi setið eftir. Þar megi nefna slökkvi­lið Akur­eyrar og slökkvi­lið Þing­eyja­sveitar þegar Vaðla­heiðar­göng opnuðu.

„Þeir fengu bíla sem eru sér­búnir til að takast á við eld, reyk eða at­burði í jarð­göngum. Það er sömu­leiðis búið að kaupa bíl á Austur­landi, það er búið að kaupa bíl fyrir slökkvi­lið Ísa­fjarðar. Þetta eru allt bílar sem eru gerðir til að takast á við at­burði í göngum og meira að segja slökkvi­liðið á Húsa­vík fékk fjár­muni frá Vega­gerðinni til þess að kaupa búnað inn í göngin sem enginn má nota undir Húsa­víkur­höfða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×