Erlent

Brestir að myndast í sam­stöðunni með Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Viktor Orban og Charles Michel.
Viktor Orban og Charles Michel.

Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins hafa safnast saman í Granada á Spáni þar sem til stendur að ræða meðal annars stækkun sambandins, flóttamannastrauminn og áframhaldandi stuðning við Úkraínu.

Ljóst er að brestir eru að myndast í samstöðu svokallaðra bandamanna Úkraínu en vestanhafs talar hópur Repúblikana um að nóg sé komið af fjáraustri og þá hóf Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, daginn á því að birta myndskeið á Facebook þar sem hann gagnrýnir aukinn stuðning við Úkraínu.

Orban beindi spjótum sínum að „möppudýrum“ Brussel og sagðist hvorki styðja áform Evrópusambandsins hvað varðaði Úkraínu né varðandi flóttafólk. Hann sagði að Ungverjaland myndi ekki styðja fyrirliggjandi tillögur um endurskoðun fjárhagsáætlunar sambandsins.

Möguleg innganga Úkraínumanna í Evrópusambandið hefur verið mikið í umræðunni og Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði fundinn í Granada meðal annars mikilvægan vegna þess að hann markaði upphaf viðræðna um langtímaáætlun sambandsins.

Evrópusambandið þyrfti að vera undirbúið undir það að stækka en í drögum að yfirlýsingu leiðtoganna segir að á sama tíma verði þau ríki sem vonast til að ganga í sambandið að leggja aukinn kraft í þær úrbætur sem aðild krefst.

Þar sé ekki síst horft til umbóta á dómskerfum ríkjanna.

Hvað varðar málefni flóttafólks eru leiðtogarnir sagðir munu lýsa því yfir að það eigi ekki að vera undir smyglurum komið hverjir fá að koma inn á svæðið og hverjir ekki.

Hér má finna ítarlega frétt Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×