Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í gær þar sem Inga Lind og athafnamaðurinn Ásgeir Kolbeinsson ræddu fréttir liðinnar viku. Ásgeir benti á að ummælin í garð Svandísar hafi aðeins verið lítill bútur úr ræðunni þar sem hún hafi farið yfir víðari völl.
„En einhverra hluta vegna hafa smelludólgar sem skrifa fréttir á miðlum ákveðið að láta þessa ræðu hennar snúast um eitthvað annað. Þannig að fyrirsögnin var alveg hreint í ósamræmi við það sem hún var að segja,“ sagði Inga Lind.
Inga segir að það sem Áslaug hafi verið að segja hafi verið að vegna þess að sjávarútvegur væri ekki viðfang ráðuneytis hennar, heldur háskólamál og nýsköpun, þá myndi hún frekar leggja áherslu á þau. „Úr þessu er snúið algjörlega,“ bætir Inga við.
Ásgeir Kolbeinsson tók undir sjónarmið Ingu Lindar, að samræmi hafi vantað í fréttaflutning af málinu.
Áslaug þótti með ummælum sínum skjóta á samráðherra sinn, en hún taldi upp marga hluti er varða sjávarútveginn og sagði Svandísi vera samnefnara yfir þá.
„Ég gæti líka rætt samnefnarann yfir þetta flest. Svandísi Svavarsdóttur. Sem situr með mér í ríkisstjórninni, ríkisstjórninni sem þið auðvitað elskið öll svo heitt og innilega. Og um hana get ég sagt eitt, sem sagt ríkisstjórnina, en ekki Svandísi: Þessi ríkisstjórn er skárri með Sjálfstæðisflokknum en án hans.“
Ummælin vöktu mikla athygli í liðinni viku. Til að mynda sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra að þau væru ekki til fyrirmyndar.
„Ég held að það sé best að Áslaug svari fyrir sín ummæli sjálf. Ég ítreka bara það sem ég segi: Stjórnmálafólk sem vill láta taka sig alvarlega það vandar sig í því hvernig það ræðir um samstarfsfólk sitt,“ sagði Katrín.