Erlent

Reyna að umkringja úkraínska hermenn

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn að störfum í austurhluta Úkraínu.
Úkraínskir hermenn að störfum í austurhluta Úkraínu. Getty/Roman Chop

Rússneskar hersveitir hafa á undanförnum dögum gert umfangsmiklar árásir við bæinn Avdívka í austurhluta Úkraínu. Markmið þeirra virðist hafa verið að skera á birgðalínur úkraínskra hermanna í borginni en áhlaupið hefur skilað takmörkuðum árangri hingað til.

Herforingjaráð Úkraínu segir hermenn hafa varist tugum áhlaupa Rússa og hefur þessum árásum verið lýstum sem þeim umfangsmestu á þessu svæði, frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar í fyrra.

Avdívka er í jaðri Dónetsk-borgar og hefur samkvæmt frétt BBC verið lýst sem hliðinu að Dónetsk, sem er höfuðborg samnefnds héraðs og hefur verið í höndum Rússa frá 2014, þegar Rússar innlimuðu Krímskaga ólöglega og studdu aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Bærinn hefur því verið í fremstu víglínu frá 2014 og er mjög víggirtur. Þess vegna eru Rússar að reyna að umkringja bæinn og þvinga úkraínska hermenn þar til að gefast upp.

Samhliða þessari sókn hafa Rússar gert umfangsmiklar loft- og stórskotaliðsárásir á Avdívka en BBC segir um 1.600 manns enn búa í bænum.

Rússar hafa beint sjónum sínum að tveimur þorpum vestan og norðvestan við Avdívka. Forsvarsmenn rússneska hersins segja hermenn sína hafa sótt fram og tekið einhverjar skotgrafir Úkraínumanna.

Hér að neðan má sjá grófa mynd af stöðunni við Avdívka eins og hún var í gærkvöldi, samkvæmt bandarísku hugveitunni Institute for the study of war.

Í samtali við blaðamann Washington Post segir Vadym Sukharevskyi, yfirmaður í úkraínska hernum, að Rússar hafi sent allt að þrjú stórfylki (e. Brigade) af ferskum hermönnum til að taka þátt í þessari sókn.

Hann segir Rússa hafa sótt fram í fylkingum skrið- og bryndreka með stuðningi fótgönguliðs, stórskotaliðs og loftárása. Þá noti Rússar dróna mikið til árása.

Árásir Rússa hafa verið fangaðar á myndbönd með drónum en bæði Rússar og Úkraínumenn nota dróna meðal annars til að vakta víglínur og til að stýra stórskotaliðsárásum.

Miðað við myndefnið hafa Rússar misst töluvert af hergögnum við Avdívka.


Tengdar fréttir

Rússar útilokaðir úr Ólympíuhreyfingunni

Alþjóðaólympíunefndin, IOC, hefur leyst upp starfsemi Ólympíunefndar Rússa og útilokað úr hreyfingunni. Tilkynnt var um þessa ákvörðun eftir fund framkvæmdaráðs nefndarinnar í dag.

Þvinga fanga til að flytja skotfæri gegnum jarðsprengjusvæði

Rannsakendur Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna segjast hafa staðfest að sex úkraínskir stríðsfangar hafi verið teknir af lífi af föngurum sínum. Stofnunin hefur einnig staðfest tvær grimmilegar aftökur úkraínskra manna sem tekin voru upp á myndbönd sem birt voru á netinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×