Nokkuð þungt var yfir fundargestum en flutt voru tvö ávörp og svo sungið. Þau Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra fluttu ávörp.
„Við erum að sýna Palesínumönnum samstöðu með því að vera hér. Við hugsum til þeirra og það er óbærilegt sem er að gerast þar í dag, sagði Fidu Abu libdeh.
Spurð hvað henni finnst um viðbrögð íslenskra stjórnvalda og ákallið fundargesta segir Fidu Sólveigu Önnu hafa orðað það vel í ávarpi sínu.
„Við höfum ekkert að segja. Við erum búin að segja það þúsund sinnum áður. Nú verður ríkisstjórnin að gera eitthvað í þessu og fordæma það sem er að gerast í Gasa.“

Spurð hvort þau séu bjartsýn á að það gerist sagði Qussay Odeh að það kæmi ekkert annað til greina en að bregðast við með einhverjum hætti.
„Þetta hefur verið til skammar í heila viku, eða rúmlega það. Það verður að koma eitthvað. Annars eru engin mannréttindi hér.“

Fidu tók undir það og sagði tímabært að fordæma aðgerðir Ísraela í Palestínu alveg eins og aðgerðir Hamas í Ísrael hafi verið fordæmdar.
„Það verður að vera strax. Það er enginn tíma til að hugsa eða funda. Það verður að gera það strax,“ sagði Qussay að lokum.

„Ég held að eftir því sem við fáum að heyra fleiri sjónarhorn af því sem er að gerast þarna á þessu svæði verður það alltaf augljósara að þetta eru ekki tvær jafnar hliðar. Þær eru báðar að berjast fyrir sínum tilverurétti, á mjög mismunandi forsendum,“ sagði Kjartan Sveinn Guðmundsson. Hann sagði önnur gera það því hún er lokuð inni og hin á röngum forsendum.

„Út af því það var framið þjóðarmorð fyrir 70 árum síðan. Það réttlætir ekki að fremja stríðsglæpi eða stofna til risastórra einangrunarbúða í dag.“