Enski boltinn

Umdeildu VAR-dómararnir fá að dæma aftur um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningmenn Liverpool þurfa að komast yfir þennan Tottenham leik því nú er augljóst að enska úrvalsdeildin hefur gert það með því að hleypa dómurunum aftur inn úr kuldanum.
Stuðningmenn Liverpool þurfa að komast yfir þennan Tottenham leik því nú er augljóst að enska úrvalsdeildin hefur gert það með því að hleypa dómurunum aftur inn úr kuldanum. Getty/Joosep Martinson

Ensku fótboltadómararnir Darren England og Daniel Cook sem klikkuðu svo svakalega í myndbandadómgæslunni á leik Tottenham og Liverpool á dögunum voru ekki lengi í skammarkróknum.

Stuðningsmenn Liverpool eru varla búnir að jafna sig ennþá en knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp bað fljótlega um að sýna dómurunum miskunn.

Nú hefur það verið staðfest að þeir England og Cook verða aftur að störfum í umferð ensku úrvalsdeildarinnar um komandi helgi. Þeir munu þó ekki koma nálægt Liverpool leikjum í næstu framtíð.

England og Cook mistókst að leiðrétta rangan rangstöðudóm þegar Luis Diaz kom Liverpool í 1-0. Misskilningur sá til þess að þeir uppgötvuðu ekki mistökin sín fyrr en leikurinn var farinn aftur í gang.

Þeir fengu tveggja umferð kælingu vegna málsins og hafa ekkert dæmt í þrjár vikur.

Darren England verður fjórði dómari í leik Brentford á móti Burnley. Cook er aðstoðardómari í leik Sheffield United á móti Manchester United.

Simon Hooper dæmdi umræddan leik Tottenham og Liverpool en hann verður í VAR-herberginu fyrir leik Newcastle og Crystal Palace.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×