Sport

Erling Haaland og félagar eru á eftir Íslandi í röðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Braut Haaland þarf líklega að bíða enn lengur eftir að spila á stórmóti með Noregi.
Erling Braut Haaland þarf líklega að bíða enn lengur eftir að spila á stórmóti með Noregi. AP/Frederik Ringnes

Það eru fleiri en Íslendingar sem bíða í voninni eftir því hvort landsliðið þeirra fái sæti í umspili um laust EM-sæti í mars. Útlitið er ágætt hjá Íslandi en staðan er mun verri hjá nágrönnum okkar.

Norðmenn, með stórstjörnurnar Erling Braut Haaland og Martin Ödegaard, hafa ekki komist á stórmót í 23 ár eða síðan á Evrópumótinu 2000. Ísland hefur farið tvisvar á stórmót á þessum tíma.

Nú eru Norðmenn með tvo af bestu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar innan sinna raða og væntingarnar eru því mjög miklar. Biðin er orðin löng og fyrir fram héldu allir að þeir myndu skilja Skota eftir í riðlinum.

Það breytir ekki því að tap á móti Spáni í þessum glugga þýddi að úrslitin voru ráðin í riðlinum. Spánn og Skotland eru komin á EM því Norðmenn geta ekki lengur náð þeim.

Norska liðið hefur aðeins unnið þrjá af sjö leikjum sínum og eru stigalausir í þremur leikjum á móti Spáni og Skotlandi með markatöluna 1-6 í þeim leikjum. Lokaleikur þeirra á móti Skotum skiptir ekki lengur máli.

Ísland er á undan Noregi í biðröðinni í B-deildinni og því þarf meira að falla með norska landsliðinu en því íslenska.

Eftir þennan glugga eru Íslendingar inni en Norðmenn úti. Finnar eru einnig inni enda tveimur sætum fyrir ofan okkur Íslendingar. Danir eru því í góðum málum með að tryggja sér sitt EM-sætið.

Svíþjóð og Færeyjar eru úr leik og eiga ekki möguleika á EM-sæti né sæti í umspilinu.

  • Röð þjóða úr B-deildinni inn í umspilið
  • 1. Ísrael
  • 2. Bosnía
  • 3. Serbía
  • 4. Skotland
  • 5. Finnland
  • 6. Úkraína
  • 7. Ísland
  • 8. Noregur
  • 9. Slóvenía
  • 10. Írland
  • 11. Albanía
  • 12. Svartfjalland
  • 13. Rúmenía
  • 14. Svíþjóð



Fleiri fréttir

Sjá meira


×