Enski boltinn

Sagði launaþak bestu lausnina fyrir kvennafótboltann

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Steve Parish er eigandi Crystal Palace
Steve Parish er eigandi Crystal Palace

Steve Parish, eigandi enska úrvalsdeildarfélagsins Crystal Palace, flutti ávarp á ráðstefnu þar sem hann kallaði eftir strangara launakerfi í kvennafótboltanum. 

Efstu tvær deildirnar á Englandi, Women's Super League og Women's Championship, hafa þá launastefnu að lið megi eyða allt að 40% af veltu sinni í launakostnað. 

WSL deildin var stofnuð árið 2011 og fjögur lið hafa hampað titlinum frá stofnun hennar; Chelsea, Arsenal, Liverpool og Manchester City. 

Steve Parish heldur því fram að vegna ósamræmis í launagreiðslum sé hætta á að stærstu liðin muni ráða öllum ríkjum í kvennafótboltanum.  

Hann tjáði sig um málið á Leaders in Sport ráðstefnunni sem fer fram í London á dögunum. Þar sagði Steve að eina leiðin til þess að jafna leikvöllinn væri að koma á kostnaðareftirliti og launaþaki. Þrátt fyrir núgildandi reglur væru í raun ekkert sem bannaði það að eyða stórum fjárhæðum í launakostnað, svo lengi sem hann yrði ekki meiri en 40% af veltu félagsins. 

Félög út um allan heim, ekki síst á Englandi, hafa leitað leiða til þess að auka veltu sína á blaði í þeim tilgangi að smeygja framhjá slíkum regluverkum og því telur Parish launaþak bestu lausnina, það er, ákveðin föst upphæð sem eyða má í laun og sama upphæð gengur yfir öll lið deildarinnar líkt og þekkist úr bandarískum íþróttum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×