Forseti Tékklands, Petr Pavel, segir evrópska leiðtoga ekki mega falla fyrir brögðum forseta Rússlands, Vladimír Pútín. Það gerir hann tveimur dögum eftir fund Pútín með forseta Ungverjalands, Viktor Orbán, í Peking. Orbán var staddur í Kína á alþjóðlegri ráðstefnu á vegum forseta landsins.
Pavel sagði í yfirlýsingu til breska miðilsins Guardian að það hefði oft sýnt sig að Pútín hitti ekki leiðtoga Evrópu með það að markmiði að ná friði.
„Það er hægt að ná friði án nokkurra samningaviðræðna ef hann myndi bara láta af árásum sínum og draga herlið sitt út úr Úkraínu,“ sagði Pavel og að eina ástæða fundanna væri að slíta í sundur sameiningu Evrópulanda og lýðræðisríkja.
„Við ættum ekki að falla fyrir brögðum hans.“
Forseti Eistlands tók í sama streng í viðtali við Reuters eftir fund Pútín og Orbán og sagði fund þeirra „mjög ógeðfelldan“. Þá gagnrýndi einnig sendiherra Bandaríkjanna í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands, fundinn og að forseti landsins hefði ákveðið að hitta mann sem sé ábyrgur fyrir glæpi gegn mannkyninu í Úkraínu.
Sendiherra Þýskalands í Ungverjalandi sagði svipaða hluti í færslu á X, áður Twitter, þar sem hún spurði hvort að innrás hans í Úkraínu hefði ekki örugglega verið rædd.
Á vef Guardian segir að Orbán hafi í vikunni hitt Pútín og að það þyki nokkuð óvenjulegt fyrir leiðtoga sem tilheyrir bæði Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu. Orbán sagði eftir fund þeirra að þeir hefðu rætt friðar- og orkumál.
Ungverjaland hefur oft verið gagnrýnt fyrir ólýðræðislega tilburði innanlands og utanríkisstefnu sem er mjög vinveitt bæði Kínverjum og Rússum. Utanríkisráðherra landsins, Péter Szijjártó, heimsækir Moskvu reglulega og svo eru margir svekktir yfir því að Ungverjar, og Tyrkir, hafi ekki samþykkt umsókn Svía í NATO.
Talsmaður ungversku ríkisstjórnarinnar hefur svarað þessum gagnrýnisröddum og sagði afstöðu Orbán til stríðsins í Úkraínu hafa verið skýra frá upphafi. En að þau tali ávallt fyrir því að eiga í opnu og gagnsæju samtali með það að markmiði að finna friðsamlega lausn að átökunum.