Erlent

For­sætis­ráð­herra Ítalíu skilinn í kjöl­far um­deildra um­mæla eigin­mannsins

Jón Þór Stefánsson skrifar
Sjónvarpsmaðurinn Andra Giambruno og forsætisráðherrann Giorgia Melono höfðu verið gift í tíu ár.
Sjónvarpsmaðurinn Andra Giambruno og forsætisráðherrann Giorgia Melono höfðu verið gift í tíu ár. AP

Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, er skilin við eiginmann sinn til tíu ára, Andrea Giambruno. Frá þessu greindi hún á samfélagsmiðlum í dag.

„Samband mitt við Andra Giambruno, sem entist í tíu ár, er hér með lokið,“ segir Meloni. „Leiðir okkar höfðu skilið fyrir einhverju síðan og það vor kominn tími á að horfast í augu við það,“

Giambruno er sjónvarpsmaður, en undanfarið hefur hann verið milli tannanna á fólki í Ítalíu vegna ummæla sem hann hefur látið falla um kvenfólk og eru að margra mati óviðeigandi.

Um er að ræða tvenn ummæli sem fjölmiðillinn Mediaset, þar sem Giambruno starfar, birti í vikunni. En orðin sem hann er gagnrýndur fyrir sagði hann við kvenkyns kollega sína þegar hann var ekki í loftinu.

„Hvers vegna hef ég ekki hitt þig fyrr?“ sagði hann við samstarfskonu sína og þótti þar með reyna við hana óviðeigandi hátt.

CNN fullyrðir að hin ummæli hans hafi þó verið umdeildari. Þar montar hann sig á því að stunda framhjáhald og sagði við kvenkyns kollega að þær gætu unnið fyrir hann væru þær tilbúnar að stunda hópkynlíf.

Áður hafa ummæli Giambruno komist í sviðsljósið á Ítalíu. Meloni var spurð út í einhver þeirra fyrr á þessu ári en þá hélt hún því fram að ekki væri rætt að dæma hana fyrir ummæli maka síns. Jafnframt sagðist hún ekki ætla að svara fyrir orð hans framar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×