Verðmiðinn á kílóverðinu þar var 3.499 krónur per kíló. Vísir heyrði í Gunnari Þorgeirssyni formanni Bændasamtakanna og spurði hann hvernig þetta megi vera? Hann segir þetta vanda.
Menn leika sér með tollnúmerin
„Jújú, það er verið að flytja þetta hingað yfir hálfan hnöttinn með tilheyrandi kolefnisspori,“ segir Gunnar og dæsir.
Gunnar segir þetta langa sögu. Þegar þau hjá Bændasamtökunum fóru að skoða innflutning á lambakjöti frá Nýja Sjálandi voru allskonar flokkar til undir lambakjöt, innflutt.
„Læri, hryggur nefndu það. Og svo er það frosið annað. Og það er nánast án gjalda. Ég velti fyrir mér á hvaða grunni þetta er flutt inn?“
Gunnar segir að þau hjá Bændasamtökunum hafi ítrekað gagnrýnt hvernig eftirliti með innflutningi á landbúnaðarvörum er háttað.

„Það er algjörlega í molum. Við vitum ekkert hvað er verið að flytja inn. Menn virðast geta flutt hvað sem er, hvenær sem er, inn undir allskyns tollanúmerum. Uppi sitjum við með Svarta Pétur. Við höfum ítrekað óskað eftir þessu við fjármálaráðuneytið og skattinn, sem hét nú þegar við byrjuðum að pönkast í þessu hét þetta tollstjóraembættið. nú er búið að sameina þetta, að þau hlutist til um málið. En ekkert gerist.“
Eitt að búa til leikreglur, annað að fara eftir þeim
Gunnar segir þetta ekki á grundvelli þeirra milliríkjasamninga sem gerðir hafi verið. Þetta standist enga skoðun nema menn séu að flytja þetta inn undir öðru tollanúmeri og svo virðist vera í þessu tiltekna dæmi.
Gunnar segir sem dæmi að gerðar hafi verið athugasemdir við innflutning á blómum nú á vordögum, sem stóðst enga skoðun miðað við þá samninga sem við erum með við EES og þá samninga sem eru í gildi.

„Jájá, þetta verður tekið til skoðunar var sagt og því svo vísað til yfirskattanefndar. En það var ekkert gert í þessu. heldur fluttum menn þessi blóm inn og bændur sátu uppi með skaðann. Eitt er að búa til einhverjar leikreglur í okkar samfélagi og annað að fara eftir þeim.“
Gunnar segist ítrekað hafa bent á að starfsumhverfi íslensks landbúnaðar grundvallist á því að framleiddar séu heilnæmar og sjálfbærar afurðir. Svo séu tollasamningar við erlend ríki til að flytja inn afurðir en meðan menn fara ekki eftir leikreglum sé okkur vandi á höndum.