Íslenski boltinn

Nennir ekki að segjast vera hættur fyrr en það er stað­fest

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óskar Örn hefur ekki staðfest hvort skórnir séu farnir upp á hillu.
Óskar Örn hefur ekki staðfest hvort skórnir séu farnir upp á hillu. Víkingur

Knattspyrnumaðurinn Óskar Örn Hauksson er mættur í þjálfarateymi Íslands- og bikarmeistara Víkings en er þó ekki viss um að skórnir séu farnir upp í hillu.

Þetta kom fram í viðtali Óskars Arnar við Fótbolti.net í gær, föstudag. Þar fer hinn 39 ára gamli vængmaður yfir ákvörðunina að verða styrktarþjálfari Íslands- og bikarmeistaranna eftir einkar farsælan feril.

Óskar Örn er leikjahæsti leikmaður efstu deildar karla í knattspyrnu frá upphafi en alls hefur hann spilað 19 tímabil í deild þeirra bestu. Leikirnir eru 373 talsins og mörkin eru 88 talsins. Hann lék þó á síðustu leiktíð með Grindavík í Lengjudeildinni en alls hefur Óskar Örn spilað 23 ár í meistaraflokki.

Óskar Örn er menntaður íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og útskrifaður úr ÍAK styrktarþjálfun frá Keili. Þrátt fyrir að vera loks búinn að taka skrefið yfir í þjálfun þá er Óskar Örn ekki búinn að taka endanlega ákvörðun hvort skórnir séu farnir upp á hillu eður ei.

„Ég nenni ekki að segja að ég sé hættur og svo dett ég kannski inn í leiki einhvers staðar einhvern tímann. Nenni ekki að tilkynna það mörgum sinnum. Ég ætla að vera með það alveg á hreinu þegar ég tilkynni það,“ sagði Óskar Örn í viðtalinu sem má lesa í heild sinni á Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×