Sport

Vandræði innan jamaíska knattspyrnusambandsins | Kvennaliðið ákvað að draga sig úr keppni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Reaggae Girlz fagna marki gegn Panama á HM 2023.
Reaggae Girlz fagna marki gegn Panama á HM 2023. Vísir / Getty

Jamaíska kvennalandsliðið í knattspyrnu á HM 2023 hefur ákveðið að draga sig úr undankeppni CONCACAF gullbikarsins vegna ádeilna við knattspyrnusambandið þar í landi. 

Yfirlýsing um málið barst á samfélagsmiðla þar sem leikmenn liðsins lýsa yfir stöðugu óréttlæti í þeirra garð og vangoldinna launa fyrir heimsmeistaramótið í sumar. 

Þær segja sig tilneyddar að grípa til svo alvarlegra aðgerða vegna þessa órettlætis sem þær hafa orðið fyrir af höndum jamaíska knattspyrnusambandsins. Samskipti sambandsins við þær hafi verið óásættanleg og greiðslur hafa ekki enn borist.

Vandræði í samskiptum leikmanna við sambandið er ekki ný af nálinnu. Áður en liðið mætti til leiks á HM í sumar gagnrýndu þær sambandið opinberlega fyrir að hafa ekki útvegað nægilega marga æfingaleiki og kvörtuðu undan skipulagi við ferðalög, slöku æfingasvæði, ófullnægjandi næringu og lélegu húsnæði í æfinga- og keppnisferðum. 

Þrátt fyrir vandræði fyrir mót stóð jamaíska liðið sig vel á HM, fengu ekki á sig mark og fóru ósigraðar gegnum riðlakeppnina áður en þær féllu úr leik með 1-0 tapi gegn Kólumbíu. 

Liðið átti svo að spila fyrstu tvo leiki sína síðan þá í næstu viku, en óljóst er hvort eitthvað verði úr því eftir þessar yfirlýsingar.

Fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, Heimir Hallgrímsson, þjálfar karlalið Jamaíka. Svipaðar sögur um knattspyrnusambandið hafa áður heyrst frá þeim, en ekkert hefur borið á góma nýlega. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×