Fótbolti

„Eng­land er heimili fót­boltans“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Stefán Teitur Þórðarson er á leiðinni til Preston
Stefán Teitur Þórðarson er á leiðinni til Preston Getty/Alex Nicodim

Stefán Teitur Þórðarson stefnir á að komast upp í ensku úrvalsdeildina með nýju félagi en hann samdi á dögunum við Preston.

Preston North End kaupir leikmanninn frá danska félaginu Silkeborg en liðið leikur í næstefstu deild Englands og endaði þar í tíunda sæti á síðustu leiktíð. Fleiri félög í sömu deild munu hafa barist um starfskrafta Stefáns Teits og má þar nefna til sögunnar Derby og QPR.

„Mér leist vel á þjálfarann eftir að hafa tala við hann og auðvitað lið sem endar í tíunda sæti á síðustu leiktíð og það heillaði að geta stefnt á úrslitakeppnina,“ segir Stefán Teitur og er hann þá að tala um möguleikann á því að komast upp í ensku úrvalsdeildina. Þjálfari Preston er Ryan Lowe.

„Ein af aðalástæðunum af hverju ég vildi fara til Englands er að England er heimili fótboltans og við viljum allir held ég spila á Englandi. Maður er búinn að alast upp við það að horfa á ensku úrvalsdeildina og því er þetta frábært skref, að koma til Preston.“

Hefur spila einn hálfleik

Stefán er sjálfur er nýkominn úr æfingaferð með liðinu á Spáni.

„Þetta er geggjuð deild, mikið af leikjum og ég hlakka til þegar þetta fer allt í gang og vera í þeim takt að spila leik eftir leik og upplifa það,“ segir Stefán sem hefur sett sér það markmið að koma sér inn í byrjunarliðið á tímabilinu.

„Það hjálpar auðvitað að það séu svona mikið af leikjum, þá færðu þínar mínútur. Ég er búinn að spila einn hálfleik með þeim núna og það var bara flott en þetta er auðvitað aðeins öðruvísi fótboltinn en það sem maður er vanur á gervigrasinu í Silkeborg.“

Rætt var við Stefán í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×