Björgvin Þór Harðarson er einn af öflugri kornbændum landsins en auk þess að vera kornbóndi er hann svínabóndi á bænum Laxárdal í Skeiða og Gnúpverjahreppi en hann ræktar allt fóður í svínin sín sjálfur, sem sagt allt alið upp á íslensku fóðri þar sem byggið er megin uppistaðan.
En það er svartur blettur á kornræktinni en það er álftin og gæsin, sem liggur í kornökrunum og étur þá upp. Álftin er sérstaklega skæð hjá Björgvini á ökrunum hans í Gunnarsholti á Rangárvöllum, sem hann leigir af Landgræðslunni.
„Þær sitja bara á kantinum og bíða á meðan maður er að þreskja og horfa á. Og svo þegar maður fer á kvöldi þá fara þær strax að kíkja á kornið, sem á eftir að slá. Ég held að hún sé búin að éta hjá mér og eyðileggja þetta árið svona sex til átta hektara,” segir Björgvin.

Og Björgvin Þór segir að það tjón, sé upp á einhverjar milljónir króna, sem fæst ekki bætt.
„Maður þarf að búa við þetta, þetta er alveg glatað.”
En hvað finnst Björgvini um að álftin sé friðuð?
„Ég held að það þurfi eitthvað að fara að endurskoða það, það er orðið allt of mikið af þessu. Þetta er bara orðið stórt vandamál ég held að það þurfi að skoða það gaumgæfilega hvort það megi ekki eitthvað grisja þennan stofn,” segir Björgvin Þór.
