Erlent

Fjögur hundruð á­rásir á sólar­hring og meira en helmingur íbúa á ver­­gangi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Særðir Palestínumenn leita aðhlynningar. Allir innviðir á Gasa eru við það að gefa undan.
Særðir Palestínumenn leita aðhlynningar. Allir innviðir á Gasa eru við það að gefa undan. AP/Abed Khaled

Ísraelsher segist hafa gert 400 árásir á skotmörk á Gasa-ströndinni síðasta sólarhringinn en í gær voru árásirnar 320. Herinn fullyrðir að aðgerðirnar hafi beinst gegn starfstöðvum hryðjuverkamanna á svæðinu.

Benjamín Netanyahu forsætisráðherra líkti aðgerðunum við hnefa úr járni sem væri að lemja á Hamas-liðum. Engar fregnir hafa borist af mannfalli í árásunum enn em komið er. 

Hamas-samtökin slepptu tveimur gíslum úr haldi í gær og á föstudag var tveimur einnig sleppt. Samtökin eru þó talin hafa rúmlega 220 gísla enn á sínu valdi, sem teknir voru til fanga í áráusunum 7. október. 

Í nýrri skýrslu frá mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að 1,4 milljónir íbúa Gasa-svæðisins hafi nú þurft að yfirgefa heimili sín en alls búa 2,3 milljónir á svæðinu. 

Skortur á drykkjarvatni og örtröð fólks á þeim svæðum sem talin eru hættuminni er að verða stórt vandamál segir ennfremur. 

Skýrsluhöfundar segja að algengt sé að um 4.500 manns hýrist í skýlum sem sett hafa verið upp og er ætlað að skýla 1.500 til 2.000 einstaklingum. 

Þá eru einnig farnar að berast sögur af því að fólk sé að snúa aftur til norðurhluta Gasa, þrátt fyrir viðvaranir Ísralea um að þar sé ekki óhætt að vera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×