Enski boltinn

Besta byrjun stjóra í sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ange Postecoglou þakkar fyrir stuðninginn eftir sigur á Fulham í gærkvöldi á Tottenham Hotspur leikvanginum.
Ange Postecoglou þakkar fyrir stuðninginn eftir sigur á Fulham í gærkvöldi á Tottenham Hotspur leikvanginum. AP/Kin Cheung

Ange Postecoglou og lærisveinar hans í Tottenham eru áfram á toppnum í ensku úrvalsdeildinni eftir að níunda umferðina kláraðist í gærkvöldi.

Postecoglou hefur byrjað frábærlega sem knattspyrnustjóri Tottenham en hann tók við liðinu af Ryan Mason fyrir tímabilið. Postecoglou er í raun eftirmaður Antonio Conte sem hætti með Tottenham í mars á síðasta tímabili.

Eftir þennan sigur í gær var ljóst að enginn knattspyrnustjóri í sögu ensku úrvalsdeildarinnar hafi byrjað betur.

Með 2-0 sigri á Fulham er Tottenham liðið búið að ná í 23 stig af 27 mögulegum. Tottenham hefur unnið sjö leiki og gert tvö jafntefli.

Mike Walker og Guus Hiddink áttu áður metið yfir flest stig í fyrstu níu leikjunum sem var 22 stig, Walker með Norwich City tímabilið 1992-93 og Hiddink Chelsea tímabilið 2008-09.

Walker náði þessu í raun í fyrstu níu leikjunum á fyrsta tímabilinu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og metið var því búið að standa alla sögu hennar.

Það sem gerir þessa byrjun enn merkilegri er að Postecoglou missti sinn besta leikmann í haust þegar Harry Kane fór til Bayern München.

Mörkin í gær skoruðu þeir Son Heung-Min og James Maddison sem báðir hafa verið frábærir. Son tók við fyrirliðabandinu þegar Harry Kane fór og Spurs keypti Maddison frá Leicester City í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×